Áframhaldandi samningur við Gaflaraleikhúsið

Fréttir

Hafnarfjarðarbær og Gaflaraleikhúsið hafa gert með sér áframhaldandi samning til þriggja ára um rekstur atvinnuleikhúss í Hafnarfirði með það að markmiði að efla menningarlíf í Hafnarfirði.

Sérstök áhersla á leiklistarstarfsemi fyrir ungt fólk og unga áhorfendur

Hafnarfjarðarbær og Gaflaraleikhúsið hafa gert með sér áframhaldandi samning til þriggja ára um rekstur atvinnuleikhúss í Hafnarfirði með það að markmiði að efla menningarlíf í Hafnarfirði og glæða áhuga Hafnfirðinga á leiklist og öðrum þeim listgreinum sem leiksviði tengjast. Framlag Hafnarfjarðarbæjar er með beinu styrkframlagi.

Lárus Vilhjálmsson framkvæmdastjóri Gaflaraleikhússins, Björk Jakobsdóttir og Gunnar Helgason með Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra.

Lárus Vilhjálmsson framkvæmdastjóri Gaflaraleikhússins, Björk Jakobsdóttir og Gunnar Helgason með Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra.

Leikverk Gaflaraleikhúss hafa vakið verðskuldaða athygli

Gaflaraleikhúsið tekur að sér að halda úti fjölbreyttri leiklistarstarfsemi á vegum leikhópsins og gangast fyrir reglulegum leiksýningum og er að auki heimilt að leita samstarfs við áhuga- og atvinnuleikhópa. Gaflaraleikhúsið leggur sérstaka áherslu á leiklistarstarfsemi fyrir ungt fólk og unga áhorfendur í starfsemi sinni en leikhúsið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á kennslu í leiklist fyrir börn og ungmenni með samstarfi við grunnskóla Hafnarfjarðarbæjar og með sjálfstæðum námskeiðum.

Fjöldi nýrra íslenskra leikverka

Gaflaraleikhúsið var stofnað árið 2010 og hefur aðsetur við Víkingastræti í Hafnarfirði. Áhorfendapallarnir rýma 220 gesti og hefur leikhúsið fest sig í sessi sem mikilvægur hluti af menningarlífi Hafnarfjarðar. Í Gaflaraleikhúsinu hafa síðustu árin verið sýnd fjöldi nýrra íslenskra leikverka sem hafa vakið verðskuldaða athygli og gert það að verkum að áhorfendur flykkjast í Gaflaraleikhúsið í þúsundatali en auk þessa hafa innlendir og erlendir leikhópar, danshópar og skólaleikhús fengið inn í húsinu með fjölda sýninga.

Ábendingagátt