Afreksíþróttafólk á fullum launum á íþróttamótum

Fréttir

Á haustmánuðum samþykkti bæjarráð Hafnarfjarðarbæjar nýjar reglur um leyfi starfsfólks til þátttöku í íþróttamótum og er stjórnendum heimilt að veita starfsfólki leyfi frá störfum án skerðingar fastra launa til að taka þátt í íþróttamótum. 

Á haustmánuðum samþykkti bæjarráð Hafnarfjarðarbæjar nýjar reglur um leyfi starfsfólks til þátttöku í íþróttamótum og er stjórnendum heimilt að veita starfsfólki leyfi frá störfum án skerðingar fastra launa til að taka þátt í íþróttamótum. Leyfi þetta takmarkast við leikmenn, fararstjóra og þjálfara vegna þátttöku í Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum, Evrópumeistaramótum, Norðurlandamótum og landskeppni.

Hafnarfjarðarbær vill með þessari ákvörðun og framtaki halda áfram heilsueflandi vegferð sinni, bæði sem vinnustaður og samfélag. Nú með því að styðja starfandi afreksíþróttafólk hjá sveitarfélaginu til dáða og gera þeim þannig kleift að sinna vinnu samhliða afrekum sínum. Hafnarfjarðarbær gekk til samninga við Embætti landlæknis í mars 2015 um þátttöku í verkefninu Heilsueflandi samfélag og hefur sveitarfélagið í samstarfi við íbúa, starfsmenn og aðra hagsmunaaðila mótað heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar. Heilsustefnan styður við þá sýn Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar að auka vellíðan íbúa og starfsmanna bæjarins með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Ábendingagátt