Afreksíþróttafólk verðlaunað

Fréttir

Hrafnhildur Lúthersdóttir, landsliðskona í sundi úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, var valin íþróttakona Hafnarfjarðar annað árið í röð og Axel Bóasson, landsliðsmaður í golfi úr Golfklúbbnum Keili, íþróttakarl ársins í Hafnarfirði. Karlalið í knattspyrnu úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar var valið íþróttalið ársins.

Afreksíþróttafólk Hafnarfjarðar var heiðrað og verðlaunað fyrir góða frammistöðu á sínu sviði í Íþróttahúsinu við Strandgötu í dag þar sem árleg Íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðarbæjar fór fram. Hrafnhildur Lúthersdóttir, landsliðskona í sundi úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, var valin íþróttakona Hafnarfjarðar annað árið í röð og Axel Bóasson, landsliðsmaður í golfi úr Golfklúbbnum Keili, íþróttakarl ársins í Hafnarfirði. Karlalið í knattspyrnu úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar var valið íþróttalið ársins. Liðið varð á árinu Íslandsmeistari í knattspyrnu auk þess að komast í aðra umferð í undankeppni Evrópudeildar UEFA.

Rúmlega sex hundruð verðlaun og viðurkenningar fyrir frækna frammistöðu

Árlega afhendir Hafnarfjarðarbær viðurkenningar til allra hafnfirskra íþróttamanna sem unnið hafa til meistaratitla á árinu; Íslands- og bikarmeistaratitla auk Norðurlandameistara. Alls hafa 489 hafnfirskir íþróttamenn unnið til Íslandsmeistaratitla á árinu í nítján íþróttagreinum frá þrettán íþróttafélögum. Fimmtán hópar hafa unnið Bikarmeistaratitla, um 170 einstaklingar auk tveggja íþróttamanna sem hlutu titilinn Norðurlandameistarar. Það eru þeir Ragnar Ingi Sigurðsson frá FH fyrir skylmingar og Hilmar Örn Jónsson hjá FH í frjálsum íþróttum. 

Hrafnhildur og Axel

Hér má sjá þau Hrafnhildi Lúthersdóttur og Axel Bóasson, íþróttakonu og íþróttakarl ársins 2015


Sautján afreksmenn fengu sérstaka viðurkenningu fyrir árangur og frammistöðu í sínum íþróttagreinum á árinu: 

Aníta Ósk Hrafnsdóttir                         Íþróttafélagið Fjörður                            Sund

Arna Stefanía Guðmundsdóttir        Fimleikafélag Hafnarfjarðar               Frjálsar Íþróttir

Auður Íris Ólafsdóttir                            Knattspyrnufélagið Haukar                Körfuknattleikur

Axel Bóasson                                              Golfklúbburinn Keilir                              Golf

Björgvin Stefánsson                               Knattspyrnufélagið Haukar                Knattspyrna

Davíð Þór Viðarsson                             Fimleikafélag Hafnarfjarðar               Knattspyrna

Elín Jóna Þorsteinsdóttir                    Knattspyrnufélagið Haukar               Handknattleikur

Giedrius Morkunas                                Knattspyrnufélagið Haukar                Handknattleikur

Gunnar Geir Halldórsson                  Siglingaklúbburinn Þytur                       Siglingar

Hjördís Rósa Guðmundsdóttir       Badmintonfélagi Hafnarfjarðar          Tennis

Hrafnhildur Lúthersdóttir                Sundfélag Hafnarfjarðar                         Sund

Kári Jónsson                                            Knattspyrnufélagið Haukar                  Körfuknattleikur

Kolbeinn Hrafnkelsson                     Sundfélag Hafnarfjarðar                         Sund

Róbert Ingi Huldarsson                    Badmintonfélag Hafnarfjarðar           Badminton

Róbert Ísak Jónsson                          Íþróttafélagið Fjörður                              Sund

Signý Arnórsdóttir                              Golfklúbburinn Keilir                               Golf

Trausti Stefánsson                              Fimleikafélag Hafnarfjarðar                 Frjálsar Íþróttir 

Íþróttamenn Hafnarfjarðar 2015

Í níu ár hafa Íþróttakona og Íþróttakarl Hafnarfjarðar verið valin að viðstöddu fjölmenni en í tuttugu og sex ár í heild hefur “Íþróttamaður Hafnarfjarðar” verið valinn. 

Hrafnhildur Lúthersdóttir, landsliðskona í sundi úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, var valin íþróttakona ársins 2015 í Hafnarfirði. Hrafnhildur er margfaldur Íslandsmeistari í einstaklingsgreinum í sundi. Hún vann sex gullverðlaun á Smáþjóðaleikunum 2015, tók þátt í heimsmeistaramótinu í Kazan í Rússlandi þar sem hún náði frábærum árangri og varð þar fyrst íslenskra kvenna til að synda í úrslitum á 50 metra braut. Hrafnhildur hefur með árangri sínum og sigrum áunnið sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. 
 

Axel Bóasson, landsliðsmaður í golfi úr Golfklúbbnum Keili, var valinn íþróttakarl Hafnarfjarðar 2015.  Axel er Íslandsmeistari í holukeppni karla 2015 og Stigameistari karla. Axel tryggði sér keppnisrétt á Nordic League atvinnumótaröðinni á árinu og er það í annað skipti sem Íslendingur nær því markmiði. Axel er landsliðsmaður í golfi og keppti víðsvegar í Evrópu á árinu. 

Karlalið í knattspyrnu úr Fimleikafélagi Hafnarfjarðar hlaut titilinn íþróttalið ársins í Hafnarfirði. Liðið varð m.a. Íslandsmeistari í knattspyrnu 2015 með 48 stig auk þess sem leikmenn Pepsi deildarinnar 2015 völdu miðjumann FH, Emil Pálsson leikmann mótsins. Liðið komst í aðra umferð í undankeppni Evrópudeildar UEFA (Knattspyrnusambands Evrópu).

Þá voru einnig veittir styrkir í viðurkenningarskyni frá Hafnarfjarðarbæ til þeirra íþróttafélaga sem unnið hafa Íslands- eða Bikarmeistaratitil í efstu flokkum á árinu. Styrkupphæð hljóðar upp á kr. 300.000- á hvern titil eða 3,6 milljónir alls til 12 hópa. Einnig var styrkjum úthlutað til íþróttafélaganna samkvæmt samningi Hafnarfjarðarbæjar, Rio Tinto Alcan og ÍBH vegna íþróttastarfs 16 ára og yngri að upphæð 7.200.000.-

Í heild hafa þúsundir einstaklinga hlotið verðlaun og viðurkenningar Bæjarstjórnar og íþrótta- og tómstundanefndar Hafnarfjarðar og enn bætist í hópinn. Það má því sem sanni segja að íþróttabærinn Hafnarfjörður sé að styrkjast og eflast með hverju árinu.

Ábendingagátt