Áhersla á bættar starfsaðstæður kennara á nýju ári

Fréttir

Settur hefur verið á laggirnar starfshópur innan Hafnarfjarðarbæjar sem hefur það verkefni að vinna að tillögum að bættum starfsaðstæðum kennara í grunnskólum Hafnarfjarðar í þeim tilgangi að tryggja að fagmenntaðir kennarar séu í öllum stöðum, gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og mæta áhyggjum kennara varðandi aukið álag í starfi. 

Settur hefur verið á laggirnar starfshópur innan Hafnarfjarðarbæjar sem hefur það verkefni að vinna að tillögum að bættum starfsaðstæðum kennara í grunnskólum Hafnarfjarðar í þeim tilgangi að tryggja að fagmenntaðir kennarar séu í öllum stöðum, gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og mæta áhyggjum kennara varðandi aukið álag í starfi. Starfshópurinn kemur til í kjölfar samræðna bæjarstjóra, fræðslustjóra, skólastjórnenda og trúnaðarmanna kennara í grunnskólunum Hafnarfjarðar.

Markmiðið að auka starfsánægju innan grunnskólanna

Starfshópurinn mun starfa í tengslum við nýsamþykktan kjarasamning grunnskólakennara og sveitarfélaga, en í bókun við samninginn segir: „Í kjarasamningum 2014 voru gerðar breytingar á starfsumhverfi kennara og vinnumat innleitt í grunnskólum. Samningsaðilar eru sammála um að framkvæmd breytinganna hafi ekki tekist sem skyldi í mörgum grunnskólum og því verði hverju sveitarfélagi falið að fara yfir framkvæmdina ásamt fulltrúum kennara í hverjum skóla. Markmið slíkrar vinnu er að bæta framkvæmdina þar sem þörf er á og ná sátt um starfsumhverfið. Beina skal sjónum að innra starfi skóla og þeim verkefnum sem grunnskólinn sinnir, tryggja að kennsla og undirbúningur séu forgangsverkefni í skólastarfi og létta álagi af kennurum þar sem við á.“

Starfshópurinn er skipaður sjö fulltrúum trúnaðarmanna grunnskólakennara í Hafnarfirði (einum úr hverjum grunnskóla), þremur fulltrúum skólastjóra, þróunarfulltrúa grunnskóla og sviðsstjóra fræðslu- og frístundaþjónustu sem jafnframt leiðir hópinn.  Gert er ráð fyrir að starfshópurinn hefji störf í byrjun janúar 2017 og skili lokaskýrslu með tillögum til fræðsluráðs Hafnarfjarðar fyrir lok skólaárs 2016- 2017. Samkvæmt erindisbréfi skal hópurinn leggja fram tillögur sem bæti starfsaðstæður kennara við grunnskóla Hafnarfjarðar í þeim tilgangi að tryggja að fagmenntaðir kennarar séu í öllum stöðum, gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og mæta áhyggjum kennara varðandi aukið álag í starfi. Þess er vænst að vinna starfshópsins leiði til aukinnar starfsánægju í grunnskólunum.

Ábendingagátt