Kvennaverkfall 2023

Fréttir

Boðað hefur verið til kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október nk. undir yfirskriftinni „Kallarðu þetta jafnrétti?“ Verkfallið hefur áhrif á þjónustu Hafnarfjarðarbæjar, en þjónusta sem snýr að velferð og öryggi fólks verður tryggð.

Boðað hefur verið til kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október nk. undir yfirskriftinni „Kallarðu þetta jafnrétti?“ Verkfallið hefur áhrif á þjónustu Hafnarfjarðarbæjar s.s. safna og sundlauga, en þjónusta sem snýr að velferð og öryggi fólks verður tryggð.

Konur og kvár hvött til að taka þátt í skipulagðri dagskrá

Á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks standa fyrir heils dags kvennaverkfalli þann 24. október og konur og kvár sem það geta leggja niður störf. Hafnarfjarðarbær styður af heilindum jafnréttisbaráttu kvenna og kynsegin fólks og tekur undir þau meginsjónarmið kvennaverkfalls að hefðbundin kvennastörf skuli metin að verðleikum og til jafns við störf karla. Þess má geta að Hafnarfjarðarbær hefur innleitt jafnlaunastefnu og fengið jafnlaunavottun og greiðir jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf óháð kyni og öðrum þáttum.

Hafnarfjarðarbær mun leita allra leiða til að konur og kvár geti lagt niður störf og tekið þátt í skipulagðri dagskrá yfir daginn og sýna samstöðu í baráttu fyrir launajafnrétti kynjanna. Hluti af starfsemi sveitarfélaga er með þeim hætti að ekki er mögulegt að leggja hana alfarið niður og kappkostað verður að tryggja þjónustu á öllum sviðum svo velferð, öryggi og heilsu fólks verði á engan hátt stofnað í hættu. Hvorki verður litið á fjarvistir kvenna og kvár vegna þátttöku í skipulagðri dagskrá, með samþykki stjórnanda, sem óréttmætar né verður dregið af launum vegna þeirra.

Sýnum samstöðu

Þennan dag verður haustfrí í grunnskólum bæjarins en opið verður í leikskólum, þar sem því verður komið við. Með samhentu átaki getum við stuðlað að því að sem flestar konur og kvár geti tekið þátt í kvennaverkfallinu og því er þeim tilmælum beint til foreldra að hafa börn sín heima eða með sér í vinnuna ef það er hægt með góðu móti. Það auðveldar þeim konum og kvárum sem starfa í leikskólum að taka þátt í dagskrá dagsins. Gera má ráð fyrir skertri þjónustu á starfsstöðvum Hafnarfjarðarbæjar s.s. í sundlaugum og söfnum og íbúar og aðrir gestir beðnir um að sýna því skilning. Sýnum samstöðu með konum og kvárum og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að sem flest geti tekið þátt í deginum.

Allar nánari upplýsingar: Forsíða – KVENNAVERKFALL (kvennafri.is)

Ábendingagátt