Álagning fasteignagjalda 2023

Fréttir

Álagningarseðlar fasteignagjalda 2023 eru nú aðgengilegir á Mínum síðum og á island.is. Álagning fasteignagjalda er reiknuð út frá fasteignamati húss og lóðar. Á seðlunum koma fram fjárhæðir fasteignaskatts, lóðarleigu, vatnsgjalds og fráveitugjalds auk sorphirðugjalds.

Fyrsti gjalddaginn fyrir árið 2023 er 1. febrúar

Álagningarseðlar fasteignagjalda 2023 eru nú aðgengilegir á Mínum síðum og á island.is. Álagning fasteignagjalda er reiknuð út frá fasteignamati húss og lóðar. Á seðlunum koma fram fjárhæðir fasteignaskatts, lóðarleigu, vatnsgjalds og fráveitugjalds auk sorphirðugjalds. Einnig kemur fram fasteignamat og upplýsingar um eigendur og greiðendur gjaldanna.

Upplýsingar um fasteignagjöld 

Álagningarprósentur fráveitugjalds og vatnsgjalds lækka til þess að koma til móts við 22% meðalhækkun fasteignamats milli ára. Miðað er við að fasteignagjöld íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði hækki að meðaltali í takti við verðlag en ljóst er að fasteignamat í bænum, og þar með fasteignagjöld, hefur hækkað mismunandi mikið eftir íbúðargerð og staðsetningu. Sorphirðugjald hækkar svo frá fyrra ári vegna innleiðingar á nýju sorphirðukerfi.

Tíu gjalddagar yfir árið – eindagi 30 dögum eftir gjalddaga

Gjalddagar fasteignagjalda í Hafnarfirði árið 2023 eru tíu. Fyrsti gjalddaginn er 1. febrúar og síðan fyrsta hvers mánaðar til 1. nóvember. Í þeim tilvikum sem heildarupphæð fasteignagjalda ársins er kr. 25.000 eða lægri er öll upphæðin innheimt á fyrsta gjalddaga ársins þann 1. febrúar. Eindagi fasteignagjalda er 30 dögum eftir gjalddaga.

Lækkun eða niðurfelling á fasteignaskatti elli- og örorkulífeyrisþega

Í upphafi árs hefur elli- og örorkulífeyrisþegum verið veitt lækkun eða niðurfelling á fasteignaskatti samkvæmt reglum um viðmiðunarfjárhæð tekna samkvæmt skattframtali fyrra árs, nú 2022. Skilyrði lækkunar eða niðurfellingar er að um sé að ræða eigið húsnæði þar sem greiðandi á lögheimili. Afsláttur fasteignaskatts er endurreiknaður þegar skattframtal 2022 er staðfest hjá Skattinum.

Við erum eingöngu rafræn! Seðlar ekki lengur á pappírsformi

Fasteignagjöldin eru til innheimtu í netbönkum. Greiðslu- og álagningarseðlar fasteignagjalda eru nú einungis birtir rafrænt og ekki lengur sendir út í pappírsformi. Hægt er að nálgast álagningarseðlana á Mínum síðum og island.is.  Allar nánari upplýsingar veitir þjónustuver Hafnarfjarðarbæjar í s. 585-5500, í gegnum netspjall á www.hafnarfjordur.is eða í gegnum netfangið: hafnarfjordur@hafnarfjordur.is

 

Ábendingagátt