Aldrei hafa svona margir klárað Ratleik Hafnarfjarðar

Fréttir

Ísold Marín Haraldsdóttir, 19 ára Hafnfirðingur, er Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2022 en hún var ein þeirra 139 sem fundu alla 27 ratleiksstaðina sem dreift var vítt og breytt um uppland Hafnarfjarðar.

Ísold Marín er Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar

Ísold Marín Haraldsdóttir, 19 ára Hafnfirðingur, er Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2022 en hún var ein þeirra 139 sem fundu alla 27 ratleiksstaðina sem dreift var vítt og breytt um uppland Hafnarfjarðar. Aldrei fyrr í 26 ára sögur Ratleiksins hafa svona margir klárað allan leikinn. Ísold Marín Haraldsdóttir fékk Scarpa gönguskó frá Fjallakofanum. Yngsti verðlaunahafinn var Hilmir Kári Jónsson, 10 ára sem var Léttfeti leiksins.

Frétt á vef Fjarðarfrétta


Ísold Marín Haraldsdóttir, 19 ára Hafnfirðingur, er Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2022. Ljósmynd: Fjarðarfréttir/Guðni Gíslason

Yngsti verðlaunahafinn var Hilmir Kári Jónsson, 10 ára sem var Léttfeti leiksins. Ljósmynd: Fjarðarfréttir/Kristján Guðnason

 

Þátttakendur á öllum aldri leita að 27 ratleiksmerkjum

Leikurinn hófst í byrjun júní og stóð til 26. september. 27 ratleiksmerkjum er komið fyrir, sumum í eða við byggðina í Hafnarfirði en flestum þó í víðfeðmu upplandi bæjarins og jafnvel út fyrir það. Prentað var vandað loftmyndakort þar sem götur og gönguslóðar eru merktar inn á og staðsetning ratleiksmerkjanna. Þátttakendur hafa svo það verkefni að finna bestu leiðina að merkjunum og stundum þarf nokkrar tilraunir til að finna merkin. Þátttakendur eru af öllum aldri og um að ræða vinsælan fjölskylduleik. Markmið leiksins er að hvetja fólk til að njóta upplands Hafnarfjarðar en leikurinn er gefinn út af Hönnunarhúsinu í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Áætla má að um sex þúsund sinnum hafi verið komið á ratleiksstaði í sumar, að minnsta kosti. Þátttakendur koma víða að, þó mest úr Hafnarfirði, en sífellt fleiri úr nágrannasveitarfélögunum taka þátt. Þema leiksins í ár var fornar þjóðleiðir, götur og stígar. Ómar Smári Ármannsson, sem heldur úti fróðleikssíðunni Ferlir.is, veitti ómetanlega aðstoð við gerð leiksins sem fyrr. Þetta var 25. ratleikurinn á 26 árum en Guðni Gíslason hafði umsjón með honum og lagði í 15. skipti.

 

Fjölmargir styrktaraðilar

Í ár er Rio Tinto á Íslandi aðalstyrktaraðili leiksins auk Hafnarfjarðarbæjar sem er samstarfsaðili um útgáfu leiksins. Fjölmörg önnur fyrirtæki styrkja leikinn m.a. með því að gefa vinninga. Fjallakofinn gaf aðalvinningana í ár, gönguskó fyrir verðlaunahafa í öllum þremur flokkunum, Þrautakóngur – 27 merki, Göngugarpur – 18 merki og Léttfeti – 9 merki. Að auki fengu tveir í hverjum flokki viðurkenningu, einn í hverjum flokki fékk sundkort frá Sundlaugum Hafnarfjarðar, og hinir fengu Gjafakort frá Fjarðarkaupum, máltíð fyrir tvo á Von og gjafabréf frá Altis. Þá voru veitt samtals 26 útdráttarverðlaun en þau voru gefin af Sundlaugum Hafnarfjarðar, Altis, Von, Burger-inn, Píluklúbbnum, Ban kúnn, Tilverunni, Rif, Krydd, Músik og sport, Gróðrarstöðinni Þöll og Gormur.is Þá styrktu Landsnet, HS-veitur og H-berg leikinn.

 

125 mættu á uppskeruhátíðina

Alls mættu 125 á uppskeruhátíð Ratleiks Hafnarfjarðar, sem haldin var í Apótekinu í Hafnarborg sl. fimmtudag. Aldrei hafa svo margir mætt áður og var húsnæðið troðfullt og þurftu margir að standa. Þar var farið yfir leikinn, myndir sýndar og verðlaun veitt. Var greinileg ánægja með leikinn og fólk strax farið að hlakka til næsta árs. Hafði fólk orð á því að þrátt fyrir að hafa margoft tekið þátt væri það alltaf að upplifa og sjá eitthvað nýtt í okkar fallega upplandi.


Húsfyllir í Hafnarborg. Ljósmynd: Fjarðarfréttir/Kristján Guðnason

Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2022

  • Ísold Marín Haraldsdóttir (19), Álfaskeiði 113
  • Finnbjörn Þorvaldsson (40), Breiðvangi 11
  • Rúna Björk Júlíusdóttir (45), Breiðvangi 13

Göngugarpur Ratleiks Hafnarfjarðar 2022

  • Kolfinna Magnúsdóttir (58), Norðurbakka 25C
  • Jónína Ágústsdóttir (74), Klukkuholti 2, Álftanesi
  • Elín Ósk Sigurðardóttir (47), Túnhvammi 15

Léttfeti Ratleiks Hafnarfjarðar 2022

  • Hilmir Kári Jónsson (10), Vesturvangi 42
  • Hávarður Örn Hávarðarson (51), Norðurbakka 23
  • Einar S. Sigurðsson (42), Dvergholti 7

Nánar um Ratleik Hafnarfjarðar á ratleikur.fjardarfrettir.is og á Facebook

Ábendingagátt