Algjörar skvísur valin haustsýning Hafnarborgar 2025

Fréttir

Algjörar skvísur verður sú fimmtánda í haustsýningarröð Hafnarborgar. Verkefnið hefur það að markmiði að gefa breiðu sviði sýningarstjóra kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu og láta rödd sína heyrast.

Fimmtánda haustsýning Hafnarborgar

Algjörar skvísur verður sýning næsta hausts í Hafnarborg. Óskað var eftir tillögum nú í sumar. Listráð Hafnarborgar og forstöðumaður safnsins völdu sýninguna úr fjölda tillagna sem bárust í gegnum árlegt opið kall safnsins.

Jasa Baka og Petra Hjartardóttir, sýningarstjórar vinningstillögunnar, munu bjóða gestum að kanna þemu sem tengjast mýkt, krafti og kvenlegri orku í samtímalist.

„Algjörar skvísur hverfist um ólíkar birtingarmyndir sætleikans, guðdómlegar og goðsagnakenndar kvenlegar erkitýpur og andahyggjuna sem lítur á (móður) náttúru sem síkvika veru. Þá eru þessar hugmyndir skoðaðar út frá því hvernig þær eiga við fólk, staði og hluti, einkum nú þegar segja má að kvenlegar erkitýpur séu að koma fram úr fylgsnum sínum og umbreyta skilningi okkar á sjálfsmynd og jafnvægi,“ segir á vef Hafnarborgar.

Sýnd verða verk sem unnin eru í margvíslega miðla og er markmiðið að varpa ljósi á það hvernig þátttakendur túlka hinar ýmsu erkitýpur og goðsagnaverur, sem og samband okkar við náttúruna. „Þannig býður Algjörar skvísur upp á áhugaverð sjónarhorn á viðkvæmni og mennsku með því að opna gátt fyrir hið yfirnáttúrulega til að flæða inn í jarðneskt líf,“ segir á vef Hafnarborgar.

  • Jasa Baka er fjöllistakona, kanadískur Vestur-Íslendingur, sem hefur búið og starfað á Íslandi síðan 2017. Hún útskrifaðist með MA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2022. Árið 2008 útskrifaðist hún með BA-gráðu í myndlist frá Concordia University í Tiohtiá:ke (Montréal), með sérhæfingu í leikhúshönnun. Hún hefur sýnt verk sín og gjörninga á fjölmörgum stöðum á Íslandi og í Kanada en einnig í New York og Aþenu.
  • Petra Hjartardóttir er listakona sem vinnur skúlptúra og innsetningar í ýmsa miðla eins og silfur, keramík og textíl. Hún hefur sýnt verk sín í galleríum og söfnum á Íslandi og erlendis. Hún hefur einnig sótt gestavinnustofur í Noregi, Frakklandi og á Ítalíu. Petra útskrifaðist með MFA-gráðu í skúlptúr frá Yale School of Art og er með BFA-gráðu í myndlist frá Hunter College í New York.

Sýningin verður sú fimmtánda í haustsýningarröð Hafnarborgar en verkefnið hefur það að markmiði að gefa breiðu sviði sýningarstjóra kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu og láta rödd sína heyrast.

Við erum spennt og hlökkum til að sjá afraksturinn.

Ábendingagátt