Allir skólar Hafnarfjarðar fá viðurkenningu fræðsluráðs

Fréttir

Viðurkenning fræðsluráðs Hafnarfjarðar er veitt á hverju ári fyrir verkefni í skólastarfi sem ýta undir skólaþróun, fagsamvinnu og samstarf. Í ár var ákveðið að veita öllum skólum í Hafnarfirði, leikskólum, grunnskólum og tónlistarskóla, viðurkenningu fyrir það stóra verkefni að halda uppi öflugu og skapandi skólastarfi á óvissutímum, fyrir að standa í framlínunni og sinna starfi sínu af mikilli alúð og öryggi.

Viðurkenning fræðsluráðs Hafnarfjarðar er veitt á hverju ári fyrir verkefni í skólastarfi sem ýta undir skólaþróun, fagsamvinnu og samstarf. Í ár var ákveðið að veita öllum skólum í Hafnarfirði, leikskólum, grunnskólum og tónlistarskóla, viðurkenningu fyrir það stóra verkefni að halda uppi öflugu og skapandi skólastarfi á óvissutímum, fyrir að standa í framlínunni og sinna starfi sínu af mikilli alúð og öryggi. Tónlistarskóli Hafnarfjarðar var fyrsti skólinn til að fá viðurkenninguna afhenta. Aðrir skólar fá viðurkenningu og veitingar til sín á næstu dögum.

Skólasamfélagið leitaði nýrra leiða og stillti saman strengi sína

Allt frá því að auglýsing um takmörkun á skólastarfi var gefin út af yfirvöldum frá og með 16. mars sl. héldu allir skólar í Hafnarfirði uppi skólastarfi með tilheyrandi endurskipulagningu og uppstokkun. Þannig lagði allt starfsfólk skólanna áherslu á að halda nemendum virkum í námi og í tengslum við kennara og skóla. Allt skólasamfélagið í Hafnarfirði stillti saman strengi sína og skipulagði nám sem veitti nemendum stuðning og öryggi og fengu tækifæri til að eiga samskipti við kennara sína og skólafélaga. Grunnskólar, leikskólar ásamt tónlistarskóla, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum leituðu nýrra leiða til að tengjast nemendum og búa þeim vettvang til menntunar í aðstæðum sem voru öllum áður óþekktar. Með fagmennsku og æðruleysi tókst skólasamfélagið á við skólastarf undir kringumstæðum sem enginn hafði reynslu af með slíkum sóma að eftir var tekið.

Leikskólastarfið einkenndist áfram af sköpun og gleði

Leikskólabörnum var tryggð leikskólavist tvo til þrjá daga í viku á meðan á samkomubanni stóð. Skólastarfið í leikskólum einkenndist líkt og áður af sköpun og gleði þar sem ævintýramennska bernskunnar var allsráðandi og börnum skapaður tryggur vettvangur til leiks og félagslegra tengsla. Skapandi starfsfólk og kennarar leikskólanna leitaði ávallt leiða til að tryggja að börnunum sem best umhverfi til leiks og sköpunar.

Stöðugleiki og rútína fyrir grunnskólanemendur

Grunnskólar í Hafnarfirði tryggðu að skólastarf væri alla daga á þann veg að nemendur sóttu skóla á hverjum degi. Með því fyrirkomulagi hélst rútína í lífi nemenda, stöðugleiki og möguleiki á að eiga í samskiptum við kennara ef nemandi þurfti leiðsögn eða að hitta félaga sína sem einnig er mikilvægur þáttur. Með aðstoð og tileinkun tækninnar voru samskipti við nemendur og kennara ásamt samvinnu milli heimilis og skóla fundinn nýr farvegur og tengsl við heimili hafa án efa styrkst við þetta áhlaup. Frístundaheimili og félagsmiðstöðvar leituðu einnig leiða til að koma til móts við nemendur og fór starfsfólk áður ótroðnar slóðir til að tengjast börnum og ungmennum og bjóða upp á skemmtilegt rafrænt starf. Kennarar og starfsfólk skólanna hafa lagt sig fram við að halda utan um nemendur og veita menntun og skapa börnum og ungmennum samskiptavettvang af alúð og fagmennsku.

Rafræn tónlistarkennsla og tónlistarnám að heiman

Kennarar í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar tóku óhrædd við þeirri áskorun að taka tæknina í sínar hendur í kennslu og leituðu ýmissa leiða til að sinna kennslu í gegnum netið þar sem nemendur léku á hljóðfæri að heiman. Það var mikil áskorun þar sem hljómgæði skiluðu ekki því sama við þær aðstæður og þær sem nemendur eiga annars að venjast. Með því að fara þessa leið gafst nemendum engu að síður tækifæri til að fá leiðsögn frá kennara í samkomubanni og ekki síður fengu foreldrar og forráðamenn innsýn í tónlistarnám barna sinna. Tónlistarkennarar Hafnarfjarðar voru óhræddir við að leita leiða til að búa nemendum sínum vettvang til að stunda nám sitt af mikilli framsýni.

Til hamingju allir skólar og þúsund þakkir fyrir ykkar faglega framlag, frumkvæði og metnað!

Ábendingagátt