Alþjóðadagur barna er í dag

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Alþjóðadagur barna er í dag. Dagurinn er afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Af því tilefni sátu öll börn miðstigs í skólum Hafnarfjarðarbæjar smiðjur þar sem þau skoðuðu réttindi sín og leiðir til að virða sáttmálann.

Alþjóðadagur barna og afmæli Barnasáttmálans

„Ég heiti því að koma fram við aðra eins og ég vil að aðrir komi fram við  mig. Ég mun leggja mig fram um að bera virðingu fyrir sjálfum mér og öðrum,“ sögðu börnin í 6. bekk Áslandsskóla samtaka eftir að hafa rýnt í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í umræðusmiðju í fyrsta tíma.

Smiðjurnar voru haldnar í öllum grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar í tilefni þess að í dag, 20. nóvember, er Alþjóðadagur barna.  Dagurinn er einmitt afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umræðusmiðjan í Áslandsskóla var einmitt haldin að því tilefni eins og á miðstigi í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar. Þetta er í fyrsta sinn sem bærinn fagnar deginum vottaður sem barnvænt sveitarfélag.

Rýndu sáttmálann saman

Smiðjurnar sem haldnar voru í morgun fjölga tækifærum barna og unglinga til samráðs, bæði meðal jafningja og við starfsfólk. Þau ræddu hvaða greinar barnasáttmálans ættu við í ólíkum aðstæðum og hvernig þau gætu framkvæmt greinarnar.

„Til dæmis talað fallega til hvors annars,“ sagði eitt ungmennið. „Ekki gera grín að öðrum,“ sagði annað. „Leyfa öllum að vera með.“ Svo nefndi eitt þeirra mikilvægi þess að bera ábyrgð. Þau nefndu að hafa yrði í huga að allir væru jafnir þegar horfa ætti til sveigjanleika í skólastarfi. Ekki mætti beita ofbeldi og að tryggja yrði aðgang að menntun.

Þau fóru yfir hvað skipti máli svo þeim líði vel:

  • Svefn
  • Vatn og matur
  • Hreyfing
  • Vinir og fjölskylda
  • Öruggt heimili

Sáttu áherslurnar í menntastefnuna

Áherslurnar í umræðsmiðjunum í öllum skólum Hafnarfjarðarbæjar eru sóttar beint í menntastefnu Hafnarfjarðarbæjar. Viðfangsefnin eru fyrstu þrjár áherslur stefnunnar; sköpun, fjölbreytileiki og vellíðan. Ferlið í heild endurspeglar fjórðu og síðustu áhersluna – samvinnu. Menntastefna sveitarfélagsins hefur nokkrar greinar Barnasáttmálans til grundvallar, það eru greinar nr. 2, 3, 6 og 12.

Niðurstöður nemenda úr smiðjunum munu móta viðfangsefni Barnaþings sem verður haldið í byrjun árs 2026. Algengustu greinarnar munu marka rammann utan um umræður þingsins. Ungmennaráð Hafnarfjarðar mun koma að framkvæmd Barnaþingsins og verður í framhaldinu boðið upp á samráðshóp miðstigs í sveitarfélaginu til þess að m.a. fylgja þinginu eftir.

Börnin í Áslandsskóla ræddu einmitt þátttöku í Barnaþinginu. Þau sem höfðu áhuga buðu sig fram og fara í pott. Dregið verður úr hver tekur svo þátt.

Hafnarfjörður barnvænt samfélag

Hafnarfjörður fékk viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag þann 21. ágúst síðastliðinn. Það felur meðal annars í sér að greinar Barnasáttmálans eru hafðar að leiðarljósi í allri ákvarðanatöku sveitarfélagsins og stefnumótun.

Kortlagning á gögnum sem fram koma á Barnaþingi fara einnig inn í stöðumat Barnvæns sveitarfélags þar sem þau verða nýtt í nýrri aðgerðaáætlun Hafnarfjarðar.

Barnvæn sveitarfélög stuðla að virkri þátttöku barna í málefnum sem snerta þau og eiga sveitarfélögin markvisst samráð við börn og ungmenni til að bæta þjónustu sína.

Meðal annars sem hefur áunnist með því að verða Barnvænt sveitarfélag er að mikil vitundarvakning hefur orðið meðal starfsfólks um mikilvægi þess að hlusta á ungmennaráð og kalla eftir sjónarmiðum þeirra. Einnig hafa stór skref verið stigin í að festa starf ungmennaráðs bæjarins í sessi sem hluta af stjórnsýslu sveitarfélagsins meðal annars með því að þau hafa nú fulltrúa ungmenna á fræðsluráðsfundum.

Í tilefni dagsins var því ákveðið að nýta tækifærið til þess að auka enn frekar sýnileika Barnasáttmálans og útbúa áþreifanlega útgáfu af sáttmálanum. Grunnskólarnir okkar fengu því sett af öllum greinum Barnasáttmálans í formi lítilla kassa sem hægt er að stafla, raða og deila að vild.

Njótum dagsins og hugsum um góða umgjörð um börnin okkar.

Ábendingagátt