Alþjóðadagur fatlaðs fólks – þátttaka í upplýstu samfélagi

Fréttir

Á Alþjóðadegi fatlaðs fólks 3. desember ár hvert er kastljósinu beint að baráttu fatlaðs fólks og mikilvægu framlagi þess í samfélaginu. Hafnarfjarðarbær leggur baráttunni lið og fagnar deginum og fjölbreytileikanum. Geitungarnir fögnuðu deginum með opnu húsi í Húsinu í gær og buðu vörur til sölu sem unnar eru á staðnum. Eins er Hafnarborg böðuð í fjólubláu ljósi þessa dagana.

Þátttaka í upplýstu samfélagi

Á Alþjóðadegi fatlaðs fólks 3. desember ár hvert er kastljósinu beint að baráttu fatlaðs fólks og mikilvægu framlagi þess í samfélaginu. Hafnarfjarðarbær leggur baráttunni lið og fagnar deginum og fjölbreytileikanum. Geitungarnir fögnuðu meðal annars deginum með opnu húsi í Húsinu í gær og buðu vörur til sölu sem unnar eru á starfsstöð Geitunganna. Eins fagnar sveitarfélagið deginum og vikunni með því að lýsa upp og varpa fjólubláu ljósi á Hafnarborg – menningar- og listamiðstöð en fjólublár er litur réttindabaráttu fatlaðs fólks. Fatlað fólk er um 15 prósent mannkyns samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar eða yfir einn milljarður á heimsvísu. Hér á landi eru þetta um 57.000 manns.

Geitungarnir, Húsið og verslunin Geitungabúið

Geitungarnir reka verslunina Geitungabúið, í húsnæði sínu að Suðurgötu 14, Búð Hússins, og selja þar vörur sem þeir hafa framleitt undir handleiðslu frábærs og skapandi kennara og hafa við framleiðsluna m.a. efnislega endurnýtingu að leiðarljósi. Búðin er að öllu jöfnu opin frá 8-17 alla virka daga, þar sem allskyns handgerðar vörur eru til sölu á frábæru verði, allt frá jólatrjástöndum til fallegra kerta. Geitungarnir eru virknitilboð þar sem leitast er við að hafa fjölbreytta valkosti og boðið upp á starfsþjálfun/ starfsprófun á almennum vinnumarkaði. Einnig er unnið að skapandi verkefnum í húsnæði Geitunganna í Húsinu á Suðurgötu og unnið markvisst að valdeflingu hvers og eins með fræðslu, vinnu og/eða virkni. Fólk með fötlun á rétt á þeirri þjónustu og stuðningi sem það þarf til að lifa sjálfstæðu og virku lífi. Í Hafnarfirði er þjónandi leiðsögn höfð að leiðarljósi og hlýja og hvatning sýnd í öllum aðstæðum.

Hafnarborg í fjólubláu ljósi

Hafnarborg tekur vel á móti öllum áhugasömum hvort sem er í hlutverki sýnenda eða gesta. Með sýnilegum og fjólubláum hætti leggur Hafnarfjarðarbær þessari mikilvægu baráttu lið með því að fagna deginum og fjölbreytileikanum og lýsa upp Hafnarborg sem hefur í skipulögðu sýningarstarfi sínu lagt áherslu á virka þátttöku allra og sköpun tækifæra fyrir alla hópa samfélagsins. Undanfarin ár hefur Hafnarborg meðal annars tekið þátt í hátíðinni List án landmæra. Nú síðast með einkasýningu Sindra Ploder, Ef ég væri skrímsli, í Sverrissal á haustmánuðum. Sindri var fyrr í ár útnefndur listamanneskja hátíðarinnar að þessu sinni.

Aukin vitund um ávinninginn af virkri þátttöku fatlaðs fólks

Alþjóðadagur fatlaðs fólks er haldinn 3. desember ár hvert og hefur verið haldinn frá árinu 1992 með það að markmiði að efla skilning á málefnum fatlaðs fólks og ýta undir stuðning við reisn, réttindi og velferð þess. Jafnframt að auka vitund um þann ávinning sem hlýst af þátttöku fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins. Markmiðið er upplýst samfélag – ekki aðeins þessa daga heldur alla daga, samfélag þar sem fatlað fólk nýtur verðskuldaðrar virðingar og sjálfsagðra réttinda.

Nánar um þjónustu Hafnarfjarðarbæjar við fólk með fötlun

Ábendingagátt