Ályktun um umferðaröryggi

Fréttir

Tekið til umræðu umferðaröryggi á gatnamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar. Bókun fundar var samþykkt samhljóða í ráðinu.

Umhverfis- og framkvæmdaráð Hafnarfjarðarbæjar tók til umræðu á fundi sínum í dag umferðaröryggi á gatnamótum Reykjanesbrautar og Rauðhellu/Krýsuvíkurvegar. Bókun sem lögð var fyrir fundinn byggir m.a. á áframhaldandi athugasemdum og ákalli fyrirtækja á Hellnahrauni og Selhrauni sem fram komu á umræðufundi sem boðaður var af fyrirtækjunum á svæðinu í síðustu viku. Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða í ráðinu.

1408009 – Reykjanesbraut tenging við Rauðhellu/Krýsuvíkurveg

Tekið til umræðu umferðaröryggi á gatnamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar

Umhverfis- og framkvæmdarráð beinir því til Vegagerðar ríkisins og innanríkisráðuneytis að fara nú þegar í aðgerðir við gatnamót Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar til að tryggja öryggi þeirra sem aka þar um. Brýnt er að hraða framkvæmdum enda um að ræða einn fjölfarnasta veg landsins. Reynist ekki unnt að fara í framkvæmdir nú þegar er farið þess á leit við Vegagerð að sett verði upp ljósastýring á gatnamótunum. Hér er um að ræða eitt stærsta atvinnusvæði landsins og umsvif fyrirtækja og fjöldi að aukast á ári hverju. Um gatnamótin aka a.m.k. 217.000 stórir flutningabílar á ársgrundvelli eða að meðaltali 93 trukkar á klukkustund samkvæmt tölum frá sex stórum fyrirtækjum á svæðinu. 156 fyrirtæki eru með virka starfsemi á svæðinu og má áætla að starfsmenn séu a.m.k. í kringum 1.700 talsins. Íbúar á svæðinu eru rétt tæplega 5.000 og er reyndin sú að stór hluti þeirra sem býr í hverfum innarlega á Völlum nýtir þessi gatnamót til og frá vinnu og á ferðum sínum um höfuðborgarsvæðið. Samkvæmt skráningum lögregluskýrslna eru tjónuð ökutæki á gatnamótum 14 bílar og 1 reiðhjól á tveggja ára tímabili. Fjöldi slasaðra eru þrír einstaklingar. Í þessar tölur vantar öll tilfelli sem tilkynnt eru beint til tryggingarfélaga án aðkomu lögreglu. Rekstraraðilar á svæðinu hafa lýst yfir verulegum áhyggjum af öryggi starfsmanna sinna og hafa þrýst á bæjaryfirvöld að grípa til viðeigandi þrýstiaðgerða áður en til dauðaslyss kemur.

Ábendingagátt