Ánægja með samstarfið við lögregluna

Fréttir

Á árlegum fundi með lykilfólki í Hafnarfirði fór Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu yfir verkefni lögreglunnar og Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn yfir stöðu mála og þróun brota í Hafnarfirði.

Á árlegum fundi með lykilfólki í Hafnarfirði fór Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu yfir verkefni lögreglunnar og Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn yfir stöðu mála og þróun brota í Hafnarfirði.

Almennt má segja um þróun afbrota að þau standi í stað í Hafnarfirði en tilkynntum innbrotum á heimili fækkar. Vegna sameiginlegs átaks lögreglunnar og Hafnarfjarðarbæjar gegn heimilisofbeldi fjölgar tilkynntum ofbeldisbrotum en á fundinum kom í ljós mikil ánægja fundarmanna með samstarfið. Markmið átaksins er að gefa skýr skilaboð um að heimilisofbeldi verður ekki liðið en nýjar verklagsreglur lögreglunnar og félagsþjónustu tryggja markviss viðbrögð við slíkum málum.

Umferðaróhöpp hafa einnig aukist en það sem af er þessu ári hafa 145 óhöpp verið tilkynnt en meirihluti þeirra óhappa er á Reykjanesbraut. Þá kemur í ljós við umferðareftirlit að annar hver bíll á Reykjavíkurvegi ekur of hratt.

Samkvæmt þolendakönnun segja 93% íbúa í Hafnarfirði lögregluna skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum og 95% Hafnfirðinga segjast öruggir í sínu hverfi.

Á fundinum gafst jafnframt tækifæri til að koma spurningum og ábendingum á framfæri við lögregluna.


Ábendingagátt