Anton Sveinn Mckee heiðraður

Fréttir

Á íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðar 2024, sem haldin var í dag, var Anton Sveinn heiðraður sérstaklega fyrir afrek sín og árangur.

 

Anton Sveinn Mckee heiðraður

Á árinu tilkynnti Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, íþróttakarl Hafnarfjarðar til tveggja ára og landsliðsmaður fyrir íslenska landsliðið í sundi, ákvörðun sína um að leggja keppnisskýluna á hilluna eftir farsælan feril sem einn af bestu íslensku sundmönnum landsins fyrr og síðar. Á íþrótta- og viðurkenningarhátíð Hafnarfjarðar 2024, sem haldin var í dag, var Anton Sveinn heiðraður sérstaklega fyrir afrek sín og árangur.

Langur og árangursríkur ferill að baki

Anton Sveinn McKee hóf feril sinn hjá SH, Sundfélagi Hafnarfjarðar, um sjö ára aldurinn. Aðeins 12 ára gamall fór hann að uppskera og upphófst langur ferill sem skilað hefur mörgum Íslandsmeistaratitlum í 200 til 1500m skriðsundi, 400m fjórsundi og 50-200m bringusundi. Í dag á hann 13 Íslandsmet og 8 Íslandsmet unglinga. Hann tók þátt í 8 Evrópumeistaramótum með besta árangri sínum í spennandi úrslitasundi í 200m bringusundi: 4. sæti í Belgrad júlí 2024. Hann tók þátt í 8 Heimsmeistaramótum með góðum árangri og oft í 16 manna úrslitum. Besti árangur hans þar var 6. sæti í 200m bringusundi árið 2022 í Búdapest. Anton vann sér inn keppnisrétt á fjórum Ólympíuleikum; 2012 í London, 2016 í Ríó, 2021 í Tókýó og 2024 í París. Í París komst Anton Sveinn í 16 manna úrslit í 200m bringusundi. Anton fékk námsstyrk fyrir háskólanám í Alabama 2013-2017, þar sem hann breytti áherslum sínum í sundi úr langssundgreinum yfir í bringusund í styttri vegalengdum. Hann hélt áfram æfingum og keppni sem atvinnumaður að mestu í Bandaríkjunum í Vestur-Virginíu eftir háskólanámið eða allt til ársins 2023 en keppti þess á milli með Íslandi og Sundfélagi Hafnarfjarðar þegar hann kom heim.

Frábær fyrirmynd

Með sérstakri viðurkenningu á hátíðinni vill Hafnarfjarðarbær og íþrótta- og tómstundanefnd þakka Antoni Sveini fyrir framlag sitt sem afreksíþróttamaður, fyrir að vera fyrirmynd fyrir ungt íþróttafólk og fyrir einstakan árangur og feril.

Ábendingagátt