Áramótakveðja

Fréttir

Mig langar með nokkrum vel völdum orðum að fara yfir árið sem senn rennur sitt skeið auk þess að tala aðeins um þá tilfinningu sem ég hef fyrir nýju ári, ári sem ég er fullviss um að einkennast muni af krefjandi og árangursríkum verkefnum og öflugu samstarfi einstaklinga og fyrirtækja innan sveitarfélagins.

Mig langar með nokkrum vel völdum orðum að fara yfir árið sem senn rennur sitt skeið auk þess að tala aðeins um þá tilfinningu sem ég hef fyrir nýju ári, ári sem ég er fullviss um að einkennast muni af krefjandi og árangursríkum verkefnum og öflugu samstarfi einstaklinga og fyrirtækja innan sveitarfélagins. 

Litið um öxl

Árið 2015 einkenndist af tölum, greiningum og rekstrarlegum úttektum sem nú í lok árs eru að skila sér í mikilvægri yfirsýn og skilningi á stöðu sveitarfélagsins og í raunhæfri og skýrri fjárhagsáætlun fyrir komandi ár. Áætlun sem skilar okkur rúmlega 360 milljóna króna rekstrarafgangi. Áætlun sem ég hef fulla trú á að við, ég og mínir meðstjórnendur og starfsmenn, getum náð að framfylgja og þar með bætt rekstrarstöðu sveitarfélagsins til muna. Aukið veltufé er forsenda þess að hægt verði að lækka skuldir sveitarfélagsins og lækkun skulda forsenda þess að hægt verði að framkvæma meira, byggja upp og bæta veitta þjónustu. Ég kýs að líta á Hafnarfjörð sem fyrirtæki, stórt þjónustufyrirtæki þar sem ég sem stjórnandi vil tryggja árangursríka og góðan rekstrarhætti og leggja áherslu á góða fyrirtækjamenningu og þar með góðan starfsanda sem aftur skilar sér margfalt í þeirri þjónustu sem veitt er til viðskiptavina. Í þessu tilfelli til bæjarbúa og fyrirtækja sem starfandi eru innan bæjarmarkanna auk gesta og gangandi sem sækja bæinn okkar heim í auknu mæli. Við höfum þegar tekið nokkur skref í rétta átt. Búið er að greiða upp erlendar skuldir bæjarins að stærstum hluta auk þess sem stórir þjónustuþættir hafa verið boðnir út og kemur útboð til með að skila umtalsverðum ábata á nýju rekstrarári. Hér nefni ég bara örfá dæmi.

Litið fram á veginn

Ég hef fulla trú á því að við, öll sem eitt, viljum sjá Hafnarfjarðarbæ vaxa og dafna sem aldrei fyrr og verða öðrum sveitarfélögum góð fyrirmynd á ýmsum sviðum. Þetta tekst með samhentu átaki okkar allra, jákvæðni og því að horfa á nærumhverfið með ný tækifæri og möguleika í huga. Ég sjálfur lofa virkri hlustun og aðstoð við þau verkefni sem tala í takt við háleit markmið og stefnu sveitarfélagsins um enn betri þjónustu og enn betri bæ til að búa í. Einstaklingsframtakið verður seint metið til fjár og langar mig að nota tækifærið og hrósa öllu því frábæra fólki sem hefur með sjálfboðavinnu sinni og framkvæmdagleði hrint í framkvæmd ótrúlegustu verkefnum sem eru bæjarfélaginu til mikils sóma. Samhliða vil ég þakka öllu því frábæra fólk sem vinnur hjá Hafnarfjarðarbæ fyrir þeirra faglegu störf í þágu bæjarins og framlag til þeirrar umbótavinnu sem þegar hefur átt sér stað og kemur til með að eiga sér áfram stað á nýju ári. Ég horfi með mikilli bjartsýni fram á veginn og mun sigla af eftirvæntingu inn í nýtt ár tilbúinn að takast á við gamlar og nýjar áskoranir og verkefni. Megi nýtt ár færa mér og góðum samstarfsfélögum mínum fleiri samtöl við áhugasama bæjarbúa sem búa yfir nýjum hugmyndum og sjá tækifæri og möguleika í sínu nærumhverfi, heimsóknir til sem flestra fyrirtækja hér í Hafnarfirði með kynningu á starfsemi þeirra og framtíðaráformum, áhugaverð og skemmtileg verkefni og umfram allt glaðbeitta bæjarbúa sem er umhugað um nærumhverfi sitt og nágranna. 

Að þessu sögðu þakka ég fyrir góðar stundir á árinu sem er að líða.

Megi nýtt ár færa okkur öllum hamingju og góða heilsu. Saman gerum við Hafnarfjörð að besta bænum! 



Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar

Ábendingagátt