Árið er 1950 – afmælisveisla fyrir sjötuga Hafnfirðinga

Fréttir

Hefð hefur skapast fyrir því að bæjarstjóri Hafnarfjarðar bjóði öllum þeim Hafnfirðingum sem eru 70 ára á árinu til veislu í Hásölum. Ekki reyndist unnt að halda veislu á árinu 2020 vegna heimsfaraldurs og loksins í gær var hátíðin haldin í Hásölum.

Hefð hefur skapast fyrir því að bæjarstjóri Hafnarfjarðar bjóði öllum þeim Hafnfirðingum sem eru 70 ára á árinu til veislu í Hásölum. Ekki reyndist unnt að halda veislu á árinu 2020 vegna heimsfaraldurs og loksins í gær var hátíðin haldin í Hásölum.  Rétt um 100 kátir Hafnfirðingar komu saman hlýddu á ljúfa tóna og fékk Þar fékk hópurinn kynningu á þjónustu Hafnarfjarðarbæjar í þágu eldri borgara, fjölbreyttu félagsstarfi hjá Félagi eldri borgara í Hafnarfirði ásamt því að hlusta á áhugaverðar og skemmtilegar sögur frá fæðingarárinu 1950 frá bæjarminjaverði.

Fleiri myndir frá afmæli er að finna á facebook síðu Hafnarfjarðarbæjar 

IMG_0371

Sögur frá fæðingarárinu 1950

Árið 1950 var að sjálfsögðu merkilegt fyrir ýmsa hluta sakir eins og flest önnur ár. Í heimssögunni voru stærstu viðburðirnir þeir að Kóreustríðið braust út, Harry Truman lýsti yfir stuðningi við þróun vetnissprengjunnar þrátt fyrir viðvaranir Einsteins. Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu var konungdæmið endurvakið í Belgíu, Indland varð sambandslýðveldi og Kínverjar réðust inn í Tíbet. Af heimsfrægu fólki fætt þetta ár má nefna Bill Murray, Stevie Wonder, Karen Carpenter og Agnethu Faltskog. 

Á Íslandi bar eftirfarandi helst til tíðinda….  

Hér heima á Íslandi bar það helst til tíðinda Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt sína fyrstu tónleika, ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar tók við völdum, Þjóðleikhúsið var vígt, Heiðmörk var gerð að friðlandi, flugvélin Geysir brotlenti á Bárðarbungu og eftir að gengi krónunnar hafi verið haldið meira og minna föstu í tvo áratugi var það fellt um hvorki meira né minna en 43% auk þess sem dregið var úr innflutningshöftum.

Í Hafnarfirði bar eftirfarandi helst til tíðinda….  

Hér í Hafnarfirði gekk eitt og annað á, eins og vænta má. Íbúafjöldinn fór í fyrsta sinn yfir 5.000 og óx bærinn hratt á þessum tíma. Í upphafi árs voru sýndar í kvikmyndahúsum bæjarins vinsælar kvikmyndir, Í Bæjarbíói var sýnd amerísk söngva- og gamanmynd sem bar nafnið „Írska rósin“ og tekið var fram í auglýsingum að mynd þessi væri í eðlilegum litum. Í Hafnarfjarðarbíói var á sama tíma sýnd stórmyndin „Merki krossins“ sem auglýst var sem stórfengleg mynd frá Róm á dögum Nerós. 

Af nýjum fyrirtækjum í bænum má geta þess að þann 3. janúar tók til starfa í bænum Þvottahúsið Fríða sem staðsett var við Lækjargötu. Það bauð uppá heimsendingarþjónustu og var hægt að velja um hvort þvotti væri skilað blautum eða fullfrágengnum. Hafnarfjörður var enn á þessum tíma mikill útgerðarbær og á vetrarvertíðinni árið 1950 voru gerðir út 20 bátar frá bænum. Af atvinnuuppbyggingunni má einnig geta þess að þetta ár fékk Olíufélagið hf. úthlutaðri stórri lóð sunnan hafnarinnar til að byggja þar upp stóra olíubirgðastöð.

Í lok janúar 1950 skall á mikið óveður á suðvesturlandi, aftakaveður af suðvestri, með roki og rigningu. Hafnargarðarnir skýldu ekki höfninni í þeirri átt og varð mikið tjón af. Stór hluti af bátaflota hafnfirðinga var bundinn við bryggjur og slitnuðu sumir upp og brotnuðu en vegna mikillar árvekni skipstjórnarmana tókst að bjarga miklum verðmætum og koma í veg fyrir meiri skemmdir, tjónið hljóp þó á tugum þúsunda. Annað óveður gekk yfir suðvesturhornið í byrjun mars og fór þá ekki eins vel enda flestir bátar við veiðar þegar það veður skall á. Þá fórst vélbáturinn „Jón Magnússon“ frá Hafnarfirði en hann var 60 smálesta eikarbátur sem gerður var út af hlutafélaginu Framtíðinni. Með bátnum fórst öll áhöfn, fjórir hafnfirðingar, einn ísfirðingur og einn bolvíkingur.

Bæjarstjórnarkosningar voru í bænum vorið 1950 og voru þrír flokkar í boði, Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Sósíalistar. Þó pólitíkin í dag geti verið hörð og beinskeytt er hún sem barnaleikur í samanburði við það sem gekk á í kosningabaráttunni 1950. Þar var talað um lúalega blaðamennsku, rætnar aðdróttanir, lygar, skrílslæti, þjóna Stalíns o.s.frv. Alþýðuflokkurinn hafði farið með völd í bænum undanfarin ár og stóð hann nokkuð vel að þeirra mati. Megin kosningamálin snéru að uppbyggingu og stækkun Bæjarútgerðarinnar, uppbyggingu hafnarinnar, Krýsuvík og húsnæðismálum. Sjálfstæðisflokkurinn setti baráttuna upp þannig að fólk væri að velja á milli Krýsuvíkur og Alþýðuflokksins eða hafnarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Niðurstöður kosninganna urðu þær að Alþýðuflokkurinn hélt velli með 5 menn kjörna, Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá og Sósíalistar einn. Sjálfstæðismenn bentu þó á að þeir hafðu aukið fylgi sitt mun meira en kratarnir frá síðustu bæjarstjórnarkosningum.

Ein merkilegasta græjan sem keypt var til bæjarins þetta ár og fékk töluverða fjölmiðlaumfjöllun var 14 tonna jarðýta með vélskóflu. Fyrst um sinn var hún einkum notuð við vatnsveituna en einnig var hægt að nota hana til að grafa fyrir húsgrunnum, moka á bíla ofaníburði í götur, ýta fyrir nýjum götum og ýta snjósköflum af vegum bæjarins. Hvar sem jarðýta þessi var við störf safnaðist jafnan töluverður hópur áhorfenda til að fylgjast með, svo merkileg þótti hún. Um mitt sumar var kynnt önnur nýjung, ný uppfinning hjá Bæjarútgerðinni en það var saltfiskþvottavél sem Haraldur Kristjánsson slökkviliðsstjóri hafði hannað og smíðað. Þvottavél þessi gat afkastað um 2.000 fiskum á klukkustund. Til samanburðar má geta þess að sólahringsafköst vélarinnar voru sambærileg 5 daga vinnu 20 – 25 stúlkna. Aðeins einu sinni áður hafði verið reynd vél við fiskþvott hér á landi en hún var erlend og reyndist illa.

Atvinnuleysisskráning fór fram í bænum í febrúar og kom þá í ljós að 39 einstaklingar voru án atvinnu í Hafnarfirði, þar af 11 bílstjórar, 5 sjómenn, 17 unglingar og 6 verkamenn. Upphaf unglingavinnunnar eða vinnuskólans má rekja til þessa árs því Óskar Jónsson lagði til á fundi bæjarráðs að hefja undirbúning að því að fram fari hér á vegum bæjarins barna- og unglingavinna við garðrækt og matjurtarækt í landi kaupstaðarins. Taldi hann nauðsynlegt að gefa unglingum sem ekki kæmust úr bænum til sumarvinnu, kost á nægilegum verkefnum, er væru við þeirra hæfi.

Nokkuð bar á vatnsskorti í bænum árið 1950 og fengu sumir bæjarhlutar ekki vatn nema hluta úr degi, ástæða þessa var sú að ekki var nægur þrýstingur á vatninu til þeirra hverfa sem stóðu hærra í bæjarlandinu og var brugðist við þessu með því að setja upp dælu til að auka þrýstingin. Ekki fór þó betur en svo að dæla þessi bilaði og tafði það mjög fyrir lausn málsins. Mikil vinna var lögð í það um sumarið að leggja hina nýju vatnsveitu til bæjarins og undir haust var búið að leggja leiðsluna rúmlega tvo þriðju hluta leiðarinnar ofan frá Kaldárbotnum og allan þann hluta sem var hvað erfiðastur. Þá var haustið nýtt til að steypa upp stífluna við vatnsbólið sjálft.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar var stofnuð snemma árs af nokkrum áhugamönnum í bænum og var aðal tilgangurinn með stofnunni að auka tónlistarlífið í bænum. Framan af var hljómsveitin skipuð 16 hljóðfæraleikurum en Albert Klahn leiðbeindi þeim. Friðþjófur Sigurðsson var formaður sveitarinnar. Ekki hafði verið lúðrasveit í bænum þá frá árinu 1928 og hafði frá þeim tíma lúðrasveitin Svanur úr Reykjavík leikið fyrir Hafnarfirðinga við hin ýmsu tilefni, enda notið styrks frá bæjarsjóði. Góðtemplarar bæjarins stóðu fyrir veislu á vordögum sem rataði í fjölmiðla. Í Morgunblaðinu sagði: „Síðastliðið laugardagskvöld héldu góðtemplarastúkurnar í Hafnarfirði allnýstárlega skemmtun, svokallað Þorrablót. Langborð eftir miðjum sal í Gúttó var hlaðið kostaforða: Flatkökum og floti, hangikjöti í stórum trétrogum og íslensku smjöri til að draga með úr flökurleikanum af feita kjötinu.“

Þetta ár var afhjúpuð í Hellisgerði brjóstmynd af Bjarna Sívertsen, föður Hafnarfjarðar en það voru útgerðarfélögin Vífill og Hrafnaflóki sem höfðu gefið Hellisgerði verkið. Minnismerkið var gert af Ríkharði Jónssyni og var fyrsta minnismerkið sem sett var upp í Hafnarfirði. Stallurinn undir myndinni er hlaðinn úr fjörusteinum sem fluttir voru austan úr Selvogi þaðan sem Bjarni var ættaður.

Eitthvað hafði borið á því að eldur kæmi upp í rafmagnstöflum í bænum og stafaði það einkum af því að vartappar, eða öryggi voru ekki notuð samkvæmt reglum og stunduðu menn þá að setja nagla í stað þeirra. Við þessu brást Rafveita Hafnarfjarðar með því að hafa öryggin einnig til sölu hjá bifreiðastöðvunum í bænum en þar var að jafnaði opin afgreiðsla til miðnættis, mun lengur en hjá Rafveitunni. Þá voru af ýmsum ástæðum breytingar gerðar á verðskrá símtala þetta ár. Leyfilegt hámark símtala innanbæjar á hverjum ársfjórðungi var fækkað úr 850 í 800 en á móti kom að langlínusamtöl, þ.e. símtöl á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur urðu ódýrari, hvert þannig símtal var flokkað sem þrjú innanbæjarsímtöl en hafði verið flokkað sem fjögur fram að því.

Til að fjármagna framkvæmdir við hafnargerðina ákvað bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bjóða bæjarbúum skuldabréf. Um var að ræða 10 ára skuldabréfalán að upphæð 500.000 kr. í 5.000, 1.000, 500 og 100 króna hlutum með 6% ársvöxtum og ríkisábyrgð. Í auglýsingu voru bæjarbúar hvattir til að kaupa skuldabréfin og flýta þannig fyrir byggingu hafnargarðsins og ávaxta um leið fé sitt með hærri vöxtum en almennt voru í boði.

Ein af stærstu framkvæmdum í Hafnarfirði þetta ár, fyrir utan vatnsveituna og hafnarframkvæmdirnar var bygging nýja elliheimilisins, Sólvangs. Um var að ræða eina stærstu byggingu í bænum og var þessi framkvæmd að hálfum hluta fjármögnuð með hagnaði af rekstri Bæjarbíós en að öðru leyti af fjárhagsáætlun bæjarsjóðs.

Þegar líða tók að jólum voru auglýstar jólabækurnar sem hentuðu í jólapakka hafnfirskra barna, annars vegar Sigrún á Sunnuhvoli og hins vegar Eiríkur gerist íþróttamaður. Þetta voru bækur sem nutu mikilla vinsælda þessi jólin. Jólamyndirnar í kvikmyndahúsunum voru þrjár, barnamyndin Gosi í Hafnarfjarðarbíói, sem var auglýst sem bæði falleg og skemmtileg. Þá sýndu þeir einnig fjörugu og bráðskemmtilegu amerísku gamanmyndina Brúðarránið en í Bæjarbíói var sýnd áhrifamikil og efnisrík ný amerísk stórmynd er bar nafnið Frú Mike. Árinu lauk svo, eins og svo mörgum öðrum árum í Hafnarfirði með jólatrésskemmtun í Góðtemplarahúsinu.

Heimildir

  • Alþýðublaðið, 03. 01. 1950, bls.7
  • Tíminn, 15. 01. 1950, bls. 8
  • Alþýðublað Hafnarfjarðar, 21. 01. 1950, bls. 4
  • Morgunblaðið, 24. 01. 1950, bls. 11
  • Tíminn, 07. 03. 1950, bls. 1
  • Hamar, 20. 01. 1950, bls. 1
  • Alþýðublaðið, 31. 01. 1950, bls. 1
  • Hamar, 10. 02. 1950, bls. 1
  • Alþýðublað Hafnarfjarðar, 27. 01. 1950, bls. 2
  • Hamar, 16. 06. 1950. Bls. 4
  • Vísir, 08. 02. 1950, bls. 1
  • Tíminn, 10. 03. 1950, bls. 8
  • Hamar, 10. 02. 1950, bls. 2
  • Alþýðublaðið, 26. 08. 1950, bls. 5
  • Morgunblaðið, 15. 02. 1950, bls. 12
  • Alþýðublaðið, 15. 02. 1950, bls. 8
  • Morgunblaðið, 21. 02. 1950, bls. 12
  • Alþýðublað Hafnarfjarðar, 16. 09. 1950, bls. 4
  • Alþýðublað Hafnarfjarðar, 18. 02. 1950, bls. 3
  • Alþýðublaðið, 30. 04. 1950, bls. 12
  • Þjóðviljinn, 13. 04. 1950, bls. 7
  • Alþýðublaðið, 26. 08. 1950, bls. 5
  • Alþýðublaðið, 24. 12. 1950, bls. 2

Ábendingagátt