Árlegt jólasund og jólamáltíðin undirbúin saman

Fréttir Jólabærinn

Fjölskyldur geta notið helgarinnar saman í Jólaþorpinu. Margt má bralla, eins og Vala Steinsdóttir formaður Foreldraráðs Hafnarfjarðar bendir á.

Fjölskyldustundirnar í Hafnarfirði

„Við fjölskyldan byrjum að hlusta á jólatónlist á Halloween, þegar við bökum fyrir afmæli eldri dóttur okkar,“ segir Vala Steinsdóttir, tveggja dætra móðir og formaður Foreldraráðs Hafnarfjarðar og formaður foreldrafélags Setbergsskóla.

Vala hefur alla tíð búið í Hafnarfirði, og maður hennar Þorsteinn Már Þorsteinsson frá sex ára aldri, utan hátt í fjórtán ára veru í Englandi og svo Hollandi, þar sem dæturnar fæddust. Við heimkomuna endurskipulagði fjölskyldan jólahefðirnar.

„Við elskum að verja aðfangadegi saman, fjölskyldan í eldhúsinu. Þar eru allir með hlutverk. En fyrst förum við í jólasund í Ásvallalaug,“ segir hún. „Við höfum svo virkilega gaman af því að undirbúa máltíðina saman, hlustum á jólalög og syngjum með, dundum okkur. Þetta er dagurinn okkar saman.“

Hún segir aðventuna gefa færi á frábærum stundum í Hafnarfirði. „Ég er svo þakklát fyrir hvað orðið er mikið líf og gleði á aðventunni í Hafnarfirði. Það minnir okkur á að þetta er samfélag,“ segir Vala.

Toppur samverunnar á aðventunni

  1. Hellisgerði – „Svo töfrandi fallegt og gaman að rölta um með fjölskyldunni og fá sér kakó. Mjög gaman er að sjá hvaða viðbót er í garðinum á hverju ári.“
  2. Jólaþorpið og jólatónleikar á Thorsplani – „Við reynum að fara á þá frábæru viðburði sem eru skipulagðir í bænum. Frábært að sjá allt lífið og hitta fjölskyldu og vini.“
  3. Hjartasvellið – „Kíkjum á Hjartasvellið sem er frábær viðbót við jólagleðina. Förum svo út að borða.“
  4. Göngum um bæinn –  „Sjáum jólatréð á Hamrinum og jólagluggana í gamla Lækjarskóla og skoðum öll fallegu jólaskreyttu húsin.“
  5. Kirkjugarðurinn – „Förum að leiðum í kirkjugarðinum og minnumst þeirra sem hafa kvatt okkur og þessa jarðvist.“

Vala og Þorsteinn með dætrunum Álfhildi Eddu og Eygló og hundinum Loka. Þau búa í Svöluhrauni og gengur yngri dóttirin í Setbergsskóla en sú eldri er komin í Kvennó. Myndir/Óli Már

 

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

Ábendingagátt