Árshátíð Hafnarfjarðarbæjar frestað – fyrirbyggjandi aðgerðir ítrekaðar

Fréttir

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónuveiru (COVID-19). Það er gert m.a. á grunni þess að sýkingin er nú farin að breiðast út innanlands. Neyðarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hefur komið saman og vinnur samkvæmt viðbragðsáætlun.

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónuveiru (COVID-19). Fyrstu smit innanlands voru staðfest í gær og eru þau orðin a.m.k. fjögur talsins. Í kjölfarið var ákveðið að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna. Það er gert m.a. á grunni þess að sýkingin er nú farin að breiðast út innanlands. Neyðarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hefur komið saman og er að störfum, verið er að tryggja að starfsemi sveitarfélagsins geti haldist órofin áfram, unnið er samkvæmt áætlun þess efnis og verið að gera ráðstafanir komi til skertrar mönnunar hjá sveitarfélaginu. Staðan er metin daglega.

Árshátíð Hafnarfjarðarbæjar frestað

Fulltrúar almannavarna hafa að höfðu samráði við sóttvarnalækni metið það svo að starfsfólk sem vinnur með og sinnir einstaklingum sem falla undir skilgreiningu á viðkvæmum hópum ætti að forðast að taka þátt í fjölmennum mannsöfnuðum. Þetta á einnig við um starfsfólk sem sinnir lykilinnviðum og þjónustu sem þarf að vera órofin á öllum stigum almannavarnaástands, ekki síst neyðarstigi. Slíkt á við um marga starfsmenn sveitarfélaga, þar með talið miðlægrar stjórnsýslu og ráðhúss. Eftir fund með almannavörnum í morgunsárið, laugardaginn 7. mars, hefur verið tekin ákvörðun um að fresta árshátíð Hafnarfjarðarbæjar um óákveðinn tíma.

Af gefnu tilefni – stór ákvörðun sem þarf að vera í takti við ráðleggingar almannavarna og sóttvarnalæknis

Rétt er að ítreka að ákvörðun um að fresta stórum samkomum sveitarfélaganna, líkt og verið er að vísa til hér með árshátíð, er gríðarlega stór. Slík ákvörðun þarf að vera í takti við leiðbeiningar og ráðleggingar almannavarna og sóttvarnalæknis á hverri stundu fyrir sig og hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði farið í einu og öllu eftir fyrirmælum þeirra eins og sveitarfélögum á svæðinu ber að gera.  Þau fyrirmæli breyttust í morgun. Nú eru óvenjulegar aðstæður á landinu og neyðarstigi almannavarna var lýst yfir í gær og var sveitarfélagið beðið um að sýna biðlund með tilkynningar um að fresta samkomum og viðburðum. Sannarlega hefði hentað öllum betur að ákvörðun hefði verið tekin fyrr og eru íbúar og allir hlutaðeigandi beðnir um að sýna ástandi og stöðu skilning.

Fyrirbyggjandi aðgerðir ítrekaðar

Það er aldrei of oft talað um fyrirbyggjandi aðgerðir sem eru; hreinlæti, þrif, tryggja gott aðgengi að handspritti, handsápu og pappírsþurrkum. Réttur handþvottur er talinn skipta miklu máli til að koma í veg fyrir smit og á það við um venjulega flensu líka. 

 

Ábendingagátt