Árshlutareikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrstu 6 mánuði 2025

Fréttir

Rekstrarhagnaður samstæðu Hafnarfjarðarbæjar, A- og B-hluta, var jákvæður um 1.875 m.kr. fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) á fyrri helmingi ársins 2025 sem er 85 m.kr. undir áætlun

Árshlutareikningur bæjarins fyrstu 6 mánuðina

Rekstrarhagnaður samstæðu Hafnarfjarðarbæjar, A- og B-hluta, var jákvæður um 1.875 m.kr. fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) á fyrri helmingi ársins 2025 sem er 85 m.kr. undir áætlun. Fjármagnskostnaður og afskriftir reyndust 307 m.kr. hærri en áætlað hafði verið. Afkoma samstæðunnar á fyrri árshelmingi var neikvæð um 620 m.kr. en gert hafði verið ráð fyrir neikvæðri afkomu á þessu tímabili um 228 m.kr. Veltufé frá rekstri nam 1.264 m.kr. í lok júní sem er 579 m.kr. umfram áætlanir.

Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var jákvæður um 735 m.kr. sem er 213 m.kr. undir áætlun. Rekstrartekjur voru 345 m.kr. umfram áætlun en hins vegar voru rekstrargjöld 558 m.kr. hærri en áætlað var, sem einkum skýrist af nýjum kjarasamningum kennara fyrr á árinu. Afkoma A-hluta Hafnarfjarðarbæjar var neikvæð um 1.152 m.kr. fyrstu sex mánuðina en áætlun gerði ráð fyrir 696 m.kr. neikvæðri afkomu á þessu tímabili.  Veltufé frá rekstri í A-hluta nam 299 m.kr. í lok júní sem er 576 m.kr. umfram áætlun.

Heildareignir A- og B-hluta samkvæmt efnahagsreikningi 30. júní 2025 voru 103,9 ma.kr. og skuldir og skuldbindingar 69,2 ma.kr. Eigið fé var 34,6 ma.kr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar 33,3%.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri:

„Fyrri helmingur ársins hefur að mörgu leyti verið þyngri en fyrirséð var, einkum hvað varðar launakostnað, en launahækkanir voru mun meiri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Þessi kostnaður er færður af fullum þunga í árshlutareikninginn þar sem enn er ekki ljóst hvernig mótaðgerðir ríkisins vegna kjarasamninganna, m.a. vegna barna með fjölþættan vanda, munu skila sér til Hafnarfjarðarbæjar. Það mun væntanlega skýrast á síðari helmingi ársins. Þá hafa lóðaúthlutanir og þéttingarverkefni verið undir áætlunum vegna hárra vaxta sem dregið hefur úr tekjum bæjarins vegna lóða- og byggingarréttargjalda. Hin mikla uppbygging sem átt hefur sér stað í bænum á undanförnum árum skilar sér hins vegar í auknum útsvarstekjum og þar af leiðandi traustum tekjustofni til framtíðar fyrir Hafnarfjarðarbæ.“

Ábendingagátt