Ásvallalaug og Sundhöll opna að nýju 18. maí

Fréttir

Ásvallalaug og Sundhöll Hafnarfjarðar opna að nýju mánudaginn 18. maí og við tekur hefðbundinn opnunartími á þessum stöðum með smá viðbótum. Suðurbæjarlaug opnar hins vegar ekki strax sökum umfangsmikilla viðhaldsframkvæmda. 

Ásvallalaug og Sundhöll Hafnarfjarðar opna að nýju mánudaginn 18. maí og við tekur hefðbundinn opnunartími á þessum stöðum með smá viðbótum. Suðurbæjarlaug opnar hins vegar ekki strax sökum umfangsmikilla viðhaldsframkvæmda. Sundlaugargestir eru áfram beðnir um að fara í einu og öllu eftir sóttvarnarreglum og sýna því skilning að til að byrja með verður einungis hægt að taka á móti 50% af hámarksfjölda í hverri laug. Ef tilslakanir yfirvalda varðandi sundlaugarnar ganga vel þá mun hámarksfjöldi fara í 75% þann 2. júní og þann 15. júní í 100%. 2ja metra regla um nándarmörk er valkvæð og gestir beðnir um að virða regluna eftir megni og möguleikum og dvelja ekki lengur en 1,5-2klst í hverri sundferð.

Tímabundin lokun ef hámarksfjölda er náð

Á hverjum sundstað verður talið í laugarnar þannig að tryggja megi að fjöldi í hverju rými fari ekki umfram reiknað hámark miðað við stærð sundstaðar og ákvörðun ráðuneytis um hámarksfjölda einstaklinga í sama rými á hverjum tíma. Tímabundin lokun laugar og mögulega ákveðinna rýma mun eiga sér stað ef hámarksfjölda gesta er náð. Börn fædd 2015 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda. Frá og með mánudeginum 18. maí verður hægt að fylgjast með rauntímafjölda í hverri laug á vef bæjarins undir upplýsingum um sundlaugarnar.

Opnunartímar og staða í hverri laug

  • Sundhöll Hafnarfjarðar er opin frá kl. 06:30 – 21:00 virka daga. Allajafna er Sundhöll Hafnarfjarðar lokuð um helgar en mun til og með 14. júní einnig vera opin um helgar, laugardaga frá kl. 08:00-18:00 og sunnudaga frá kl. 08:00-17:00. Á Uppstigningardag, fimmtudaginn 21. maí, verður opið frá kl. 08:00 – 17:00. Vakin er sérstök athygli á því að frá kl. 8-15 alla virka daga er skólasund og því gætu komið upp takmarkanir vegna fjölda auk þess sem ekki er hægt að synda í lauginni á meðan á skólasundi stendur. Hámarksfjöldi til og með 1. júní miðast við 32 einstaklinga (50%) og 75% frá og með 2. júní. Fjöldatakmarkanir falla niður 15.júní.
  • Ásvallalaug er opin frá kl. 06:30 – 22:00 mánudaga til fimmtudaga, föstudaga frá kl. 06:30-20:00, laugardaga frá kl. 08:00-18:00 og sunnudaga frá kl. 08:00-17:00. Á Uppstigningardag, fimmtudaginn 21. maí verður opið frá kl. 08:00 – 17:00 í lauginni. Vakin er sérstök athygli á því að frá kl. 8-15 alla virka daga er skólasund og því gætu komið upp takmarkanir vegna fjölda. Rennibraut laugar er lokuð vegna viðhalds. Hámarksfjöldi til og með 1. júní miðast við 200 einstaklinga (50%) og 75% frá og með 2. júní. Fjöldatakmarkanir falla niður 15.júní.
  • Suðurbæjarlaug opnar ekki strax sökum umfangsmikilla viðhaldsframkvæmda í lauginni þ.m.t. á þaki laugarinnar. Gert er ráð fyrir að opna útisvæði laugarinnar mánudaginn 25. maí nk. sem þýðir að einungis verður opið í útilaug, potta og útiklefa. Innilaug og búningsklefar inni sem og gufuböð og rennibraut verða lokuð áfram. Hámarksfjöldi til og með 1. júní miðast við 30 einstaklinga (50%). Frá og með 2. júní er gert ráð fyrir 45 einstaklingum. Meðan viðhaldsframkvæmdir standa yfir verða áfram takmarkanir á fjölda gesta og gert ráð fyrir 60 einstaklingum frá og með 15. júní.

Við erum öll almannavarnir!

Áfram gildir, líkt og á öllum öðrum stöðum, að gestir mega ekki koma inn á sundstaði ef þeir:

  • eru í sóttkví
  • eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku)
  • hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift
  • eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).

Allar upplýsingar um sundlaugar Hafnarfjarðar er að finna hér

Ábendingagátt