Atvinnuhúsalóðir lausar til úthlutunar

Auglýsingar Fréttir

Hafnarfjarðarbær auglýsir lausar til umsóknar atvinnulóðir í ört vaxandi iðnaðar- og athafnahverfi í  Hellnahrauni fyrir fyrirtæki í leit að framtíðarstaðsetningu. Öflugt atvinnulíf er nú þegar á svæðinu, nálægð við alþjóðaflugvöll og höfn og samgöngur greiðar.

Hellnahraunið er atvinnuhverfi fyrir allskonar fyrirtæki

Hafnarfjarðarbær auglýsir lausar til umsóknar atvinnulóðir í ört vaxandi iðnaðar- og athafnahverfi í  Hellnahrauni fyrir fyrirtæki í leit að framtíðarstaðsetningu. Öflugt atvinnulíf er nú þegar á svæðinu, nálægð við alþjóðaflugvöll og höfn og samgöngur greiðar. Hverfið hefur verið í mikilli uppbyggingu og örum vexti síðustu misseri og aðgengi að hverskyns þjónustu er gott.

Lóðir fyrir verslanir, skrifstofur, matvælaiðnað og aðra þjónustu

Lóðirnar, sem eru 22 talsins, eru í flokki AT3 sem þýðir að þær henta fyrir starfsemi s.s. verslanir, skrifstofur, hreinlegan iðnað s.s. matvælaiðnað og aðra þjónustustarfsemi samkvæmt skilgreiningu skipulagsreglugerðar. Hámarksbyggingarhæð bygginga er 12m og er nýtingarhlutfall 0,6. Lóðirnar verða tilbúnar til afhendingar 1. nóvember 2023 og er fyrirkomulag greiðslna þannig að helmingur verðs er greiddur við úthlutun og seinni helmingur þegar lóðin er afhent.

Ítarlegar upplýsingar um lausar lóðir má finna á Kortavef Hafnarfjarðarbæjar

Hverfi í örum vexti og mikilli uppbyggingu

Kostir atvinnulóða á þessu svæði í Hafnarfirði eru margþættir. Svæðið er í örum vexti og mikil uppbygging að eiga sér stað með tilheyrandi áhrifum á fasteignaverð og verðmæti lóða. Atvinnuhverfinu er skipt upp eftir starfsemi og því tilbúið til að taka á móti ólíkum fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum s.s. í  ferðaþjónustu, verslun, þjónustu, þekkingariðnaði og framleiðslu. Mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar hafa auðveldað til muna aðgengi að svæðinu og opnað enn betur fyrir umferð úr öllum áttum m.a. að höfn og hafnarsvæði og alþjóðaflugvelli auk stærstu umferðaræða til og frá stór-höfuðborgarsvæðinu. Stór og öflug fyrirtæki hafa nýlega sest að í hverfinu og fleiri að undirbúa flutning í hverfið.

Umsóknir um lóðir

Umsóknum um lóðir er skilað inn rafrænt í gegnum Mínar síður á vef Hafnarfjarðarbæjar. Nánari upplýsingar gefur starfsfólk þjónustuvers Hafnarfjarðarbæjar í síma: 585-5500 | netfang: hafnarfjordur@hafnarfjordur.is

Upplýsingar um lausar lóðir í Hafnarfirði

Ábendingagátt