Aukið samstarf við Heimili og skóla formfest á Degi gegn einelti

Fréttir

Hafnarfjarðarbær og Heimili og skóli – landssamtök foreldra skrifuðu í dag undir samstarfssamning sem ætlað er að formfesta ákveðið samstarf og ýta undir og efla enn frekar öflugt foreldra-, forvarna- og fræðslustarf í sveitarfélaginu meðal annars með markvissri fræðslu og ráðgjöf frá sérfræðingum Heimilis og skóla.

Vakningarátakið Verum snjöll og fjölbreytt fræðsla og ráðgjöf

Hafnarfjarðarbær og Heimili og skóli – landssamtök foreldra skrifuðu í dag undir samstarfssamning sem ætlað er að formfesta ákveðið samstarf og ýta undir og efla enn frekar öflugt foreldra-, forvarna- og fræðslustarf í sveitarfélaginu meðal annars með markvissri fræðslu og ráðgjöf frá sérfræðingum Heimilis og skóla. Nemendur í öllum 6. bekkjum í grunnskólum Hafnarfjarðar fá svokallaða SAFT fræðslu undir heitinu Verum snjöll en SAFT – samfélag, fjölskylda og tækni – er vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. Auk þess verða skipulagðir SAFT fræðslufundir (netfundir) fyrir foreldra barna og ungmenna í Hafnarfirði þar sem farið er yfir hlutverk foreldra og forvarnir í netmálum. Fræðslan fer fram á tímabilinu 15.01 – 15.04.2023.

Árný Steindóra Steindórsdóttir staðgengill sviðsstjóra mennta- og lýðheilsusviðs hjá Hafnarfjarðarbæ og Þorvar Hafsteinsson formaður Heimili og skóla – landsamtaka foreldra handsala formlegt samstarf næstu vikur og mánuði.

Greiður aðgangur að fulltrúa frá Heimili og skóla

Nýr samningur felur einnig í sér að leikskólar, grunnskólar og foreldrafélög í Hafnarfirði fá úthlutað beinum tengilið frá Heimili og skóla sem tryggir skilvirka þjónustu, markvissa eftirfylgni og annan þann mikilvæga stuðning sem Heimili og skóli innir af hendi. Samhliða fá allir þessir aðilar aðgang að öllu fræðsluefni og öðru því efni sem Heimili og skóli og SAFT gefa út. Samningurinn gildir til að byrja með í eitt ár með möguleika á framlengingu.

Dagur helgaður baráttunni gegn einelti

Ár hvert er 8. nóvember helgaður baráttunni gegn einelti í skólum. Á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og er skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti. Grunnskólar í Hafnarfirði hafa um nokkurra ára skeið lagt áherslu á vináttu í heila viku kringum daginn. Sammerkt með vinaviku grunnskólanna er að skólarnir hafa helgað þessari viku vináttu og samkennd og er skólastarf sniðið að verkefnum sem kalla á samvinnu og samstarf allra aldurshópa t.d. við að leysa þrautir og fleiri skemmtileg verkefni.

Ábendingagátt