Aukin framlög til uppbyggingar og sumarstarfa

Fréttir

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í gær áætlun um eftirfylgni og áframhaldandi aðgerðir vegna Covid19. Áætlunin tekur til áframhaldandi stuðnings við íbúa og atvinnulíf í Hafnarfirði og þess að styrkja grunnstoðir bæjarins þar til efnahagslífið hefur náð fyrri styrk. 

Aukin framlög til innviðauppbyggingar og sumarstarfa ungmenna

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í gær áætlun um eftirfylgni og áframhaldandi aðgerðir vegna Covid19. Áætlunin tekur til áframhaldandi stuðnings við íbúa og atvinnulíf í Hafnarfirði og þess að styrkja grunnstoðir bæjarins þar til efnahagslífið hefur náð fyrri styrk. Með nýrri áætlun fylgja bæjaryfirvöld í Hafnarfirði eftir fyrri áætlun og halda áfram að bregðast með markvissum hætti við áhrifum faraldursins á atvinnu og efnahagslíf.

Framundan eru krefjandi verkefni á vettvangi sveitarfélaga

Þótt vísbendingar séu um hægfara endurreisn ferðaþjónustu hér á landi, þá sér ekki fyrir endann á faraldrinum á heimsvísu og efnahagslegum afleiðingum. Tímabundnar stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa unnið á móti vaxandi atvinnuleysi hér á landi og vegið á móti tekjumissi. Enn eru krefjandi verkefni á vettvangi sveitarfélaga við að halda uppi fullri þjónustu og framkvæmdastigi. „Við höldum áfram að bregðast við neikvæðum áhrifum Covid19 með því að fjölga sumarstörfum fyrir ungmenni í bænum í ljósi þess að umsóknir hafa aldrei verið fleiri en í ár. Einnig styðjum við áfram við atvinnulífið með því að auka við framkvæmdir í sveitarfélaginu. Nú í sumar leggjum við aukið fé í endurbætur, fegrun og frágang stíga og gatna í hverfum bæjarins. Með þessu höldum við áfram að taka virkan þátt í þeirri endurreisn sem fyrir höndum er. Traust fjárhagsstaða sveitarfélagsins, meðal annars vegna aukinnar lóðasölu og sölunnar á hlutnum í HS-Veitum gerir okkur þetta kleift,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Í framhaldi af fyrri aðgerðaráætlun leggur bæjarstjórn fram eftirfarandi áætlun:

  1. Tímabundin störf – aukið fjármagn verður lagt í tímabundin störf á vegum bæjarins. Boðið verður upp á fleiri störf í vinnuskóla, auk myndarlegrar þátttöku í atvinnuátaki stjórnvalda þar sem boðið er upp á sumarstörf fyrir námsmenn og tímabundin störf fyrir fólk í atvinnuleit. Samtals verða 250 milljónir króna lagðar í tímabundin störf á vegum Hafnarfjarðarbæjar.
  2. Framkvæmdaáætlun – áhersla á viðhaldsframkvæmdir og uppbyggingu innviða. Farið verður í fjölbreyttar framkvæmdir í bænum sem bjóða upp á ýmiskonar atvinnutækifæri. Dæmi um verkefni er endurnýjun gangstétta í eldri hverfum bæjarins, frágangur gatna og stíga í Skarðshlíð og Hellnahrauni, endurnýjun og viðhald á skólalóðum og endurnýjun stíga og rafmagns í Hellisgerði. Samtals verður 340 milljónum króna bætt við viðhalds- og innviðaframkvæmdir á vegum Hafnarfjarðarbæjar.
  3. Menning, listir og skapandi greinar – ákveðið hefur verið að bæjarhátíðin Bjartir dagar standi yfir í allt sumar og endurspegli allt það fjölbreytta menningarstarf sem á sér stað í Hafnarfirði. Í venjulegu ári stendur þessi fyrsta bæjarhátíð landsins yfir í fimm daga. Samtals verður bætt við 5 milljónum króna til sérstakra menningarviðburða í Hafnarfirði sumarið 2021.

Einhugur og samstaða um aðgerðir

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í apríl 2020 aðgerðaáætlun til að bregðast við efnahagslegum áhrifum COVID-19 faraldursins á íbúa, félög og fyrirtæki auk reksturs sveitarfélagsins sjálfs. Lögð var áhersla á að um fyrstu aðgerðir Hafnarfjarðarbæjar væri að ræða, sem ætlað var að tryggja rekstur bæjarfélagsins og koma til móts við atvinnulíf og íbúa sem þurfa að standa af sér afleiðingar faraldursins. Aðgerðirnar miðuðu einnig að því að lágmarka þá niðursveiflu sem óhjákvæmileg væri og standa vörð um þjónustu bæjarfélagsins. Samstaða var í bæjarstjórn um áætlunina og hefur verið starfað í samræmi við hana með góðum árangri síðasta árið. Ný aðgerðaáætlun verður ásamt viðauka við fjárhagsáætlun lögð fyrir til samþykktar á fundi bæjarstjórnar 26. maí næstkomandi.  

Ábendingagátt