BRÚIN – Barn | Ráðgjöf | Úrræði

Fréttir

BRÚIN er ný nálgun í þjónustu við leik og grunnskólabörn í Hafnarfirði sem unnið hefur verið að síðan í lok árs 2016. Þetta viðamikla verkefni snýr að því að finna leiðir til að bæta þjónustu við leik- og grunnskólabörn bæjarins og fjölskyldur þeirra.

Brúin er ný nálgun í þjónustu við leik- og grunnskólabörn í Hafnarfirði sem unnið hefur verið að síðan í lok árs 2016. Þetta viðamikla verkefni snýr að því að finna leiðir til að bæta þjónustu við leik- og grunnskólabörn bæjarins og fjölskyldur þeirra en undanfarin ár hefur fagfólk og foreldrar lýst yfir áhyggjum af því að ekki sé nægileg markviss þjónusta við börn og unglinga með félags-, náms- og/eða geðheilbrigðisvanda á Íslandi.

Hafnarfjardarlikanid

Haustið 2018 var farið af stað með þessa nýja nálgun og er samþætting og aukin þjónusta að fara í gegnum lausnateymi sem starfa með báðum skólastigunum. Rauði þráðurinn í BRÚNNI snýr að velferð og lífsgæðum barna og fjölskyldna þeirra og er áhersla lögð á að veita aukna þjónustu á fyrri stigum og auka samvinnu á milli fagsviða og skóla. Í lausnateymi sitja fulltrúar leik- og grunnskóla, sálfræðingur/sérkennslufulltrúi frá fræðslu- og frístundaþjónustu og sérfræðingur Brúarinnar. Um er að ræða heildstæðan stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. „Í lausnateymi er nám, hegðun, þroski og/eða líðan barns rædd með samþykki foreldra og viðunandi úrræði virkjuð til að bregðast fyrr við erfiðleikum eða aðstæðum barnsins. Vandinn er þannig greindur á fyrri stigum og reynt að koma í veg fyrir þróun til verri vegar með því að nýta strax viðeigandi úrræði. Jafnframt er leitast við að draga úr biðlistum eftir greiningu og þörf fyrir aðkomu barnaverndar með því að grípa fyrr inn í og veita þessa snemmtæku þjónustu“ segir Hulda Björk Finnsdóttir verkefnastjóri og einn af sérfræðingum lausnateymis. Þróun verkefnisins fer fram með sjö leikskólum og þremur grunnskólum bæjarins en vinnulagið verður síðar innleitt í alla leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar. Ekki er um tímabundið verkefni að ræða heldur breytt verklag í þjónustu við börn og fjölskyldur hjá Hafnarfjarðarbæ sem þróað er og unnið í samstarfi allra hlutaðeigandi. 

Í forsvari fyrir verkefnið hjá Hafnarfjarðarbæ eru Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri fjölskylduþjónustu, Fanney D. Halldórsdóttir sviðsstjóri fræðslu- og frístundaþjónustu (t.v.) og Hulda Björk Finnsdóttir verkefnastjóri (t.h.). Sjá mynd.

Ábendingagátt