Aukin þjónusta fyrir fatlað fólk

Fréttir

Samtökin Specialisterne á Íslandi hafa tekið að sér faglega þjónustu til fatlaðra atvinnuleitenda innan Hafnarfjarðar. Hér er um hreina viðbót að ræða við önnur þau úrræði sem í boði eru.

Hafnarfjarðarbær og sjálfseignarstofnunin Sérfræðingarnir (Specialisterne á Íslandi) gerðu nýlega með sér samstarfssamkomulag til sex mánaða sem gildir frá og með næstu mánaðarmótum. Specialisterne munu á tímabilinu veita fötluðum atvinnuleitendum innan Hafnarfjarðarbæjar starfsþjálfun við hæfi auk starfsmats gagngert til að auka líkur þeirra og farsæld á almennum vinnumarkaði. Hér er um hreina viðbót að ræða við önnur þau úrræði sem í boði eru innan sveitarfélagsins.

Samtökin Specialisterne á Íslandi hafa tekið að sér faglega þjónustu til fatlaðra atvinnuleitenda innan Hafnarfjarðarbæjar.  Fjöldi beinna atvinnuleitenda yfir árið fer eftir framvindumati en miðað er við að fjögur starfsþjálfunarrými verði fullnýtt hjá Specialisterne hverju sinni. Viðverutími hvers og eins þjónustunotenda er fjórir tímar á dag. Samtökin leggja til húsnæði og sérfræðiþekkingu, tryggja að gæði starfsins séu fullnægjandi og að starfið árangursríkt fyrir atvinnuleitendur.

Um Specialisterne

Sérfræðingarnir er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var í upphafi árs 2010 af Umsjónarfélagi einhverfra og sjö einstaklingum þar að auki. Markmið og tilgangur með stofnun félags var sérhæfing í þjónustu sem snýr að atvinnustuðningi við einstaklinga á einhverfurófi. Hér var um að ræða nýtt og þarft úrræði á Íslandi og höfðu of margir einstaklingar á einhverfurófi verið atvinnulausir fram til þessa eða í störfum þar sem starfsgeta þeirra nýttist illa.

Hafnarfjarðarbær bindur miklar vonir við þennan samning sem líklegur er til að skila enn fleira  fólki út á vinnumarkaðinn. Annað dæmi um vel lukkað verkefni fyrir atvinnuleitandi fatlað fólk er Geitungarnir – verkefni sem 6 einstaklingar hafa tekið virkan þátt í frá haustmánuðum 2015.  Aukning er einnig að eiga sér stað innan raða Geitunga á nýju ári.

Ábendingagátt