Aukin þjónusta við fatlað fólk

Fréttir

Í morgun undirrituðu,
Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri og Guðrún Þórðardóttir formaður Áss
styrktarfélags, þjónustusamning vegna búsetukjarna fyrir fatlað fólk við
Klukkuvelli í Hafnarfirði.

Í morgun undirrituðu, Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri og Guðrún Þórðardóttir formaður Áss styrktarfélags, þjónustusamning vegna búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Klukkuvelli í Hafnarfirði.

Árið 2013 undirrituðu Hafnarfjarðarbær og Ás styrktarfélag viljayfirlýsingu þess efnis að Ás stæði að byggingu og rekstri þriggja búsetukjarna fyrir fatlað fólk í Hafnarfirði. Skóflustunga að fyrsta kjarnanum sem er að Klukkuvöllum  var tekin 3. febrúar 2014.

Samningurinn sem undirritaður var í morgun er viðbót við þau búsetuúrræði sem fyrir eru í Hafnarfirði, en 10 heimili fyrir fatlað fólk eru nú þegar rekin af Hafnarfjarðarbæ.

Fyrirhugað er að Ás styrktarfélag haldi áfram áætlaðri uppbyggingu þegar nauðsynlegum undirbúningi næstu lóða er lokið.

Gert er ráð fyrir að sex íbúar geti flutt inn á Kirkjuvellina í sumar.

Haraldur Líndal Haraldsson bæjarstjóri segir samninginn við  Ás styrktarfélag vera tímamótasamning fyrir sveitarfélagið. „Sú leið sem farin er með þessu samstarfi stuðlar að því að sveitarfélagið byggi upp sértæk búsetuúrræði á skemmri tíma og með hagkvæmari hætti en áður“ segir Haraldur.

Guðlaug Kristjánsdóttir formaður fjölskylduráðs segir samninginn mikið fagnaðarefni, enda mikilvægt að í bænum standi til boða fjölbreytt búsetuform fyrir fatlað fólk. „Við hlökkum til að sjá líf færast í húsið á Klukkuvöllum nú í sumar og munum fylgja því eftir að áform um seinni húsin tvö gangi eftir.“

Nú standa yfir viðræður við Þroskahjálp um byggingu húsnæðis sem mun leysa af hólmi starfandi heimili sem stenst ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru og fleiri hugmyndir um búsetuúrræði fyrir fötluð ungmenni eru í farvatninu.

Ábendingagátt