Ávarp Fjallkonu Hafnarfjarðar 2023

Fréttir

Hafnfirska söngkonan Klara Elíasdóttir er Fjallkona Hafnarfjarðar 2023. Klara frumflutti lag sitt Loforð sem ávarp og ástarljóð Fjallkonunar 2023 til Hafnarfjarðar á sjálfan þjóðhátíðardaginn í hjarta Hafnarfjarðar að viðstöddu fjölmenni.

Hafnfirska söngkonan Klara Elíasdóttir er Fjallkona Hafnarfjarðar 2023. Klara frumflutti lag sitt Loforð sem ávarp og ástarljóð Fjallkonunar 2023 til Hafnarfjarðar á sjálfan þjóðhátíðardaginn í hjarta Hafnarfjarðar að viðstöddu fjölmenni.

 

Loforð

Höfundur: Klara Ósk Elíasdóttir

 

Þar sem stöðuvötnin hittast

Við hraunsins hvössu brún

Þar sem haf og himinn kyssast

Þar mætumst ég og þú

 

Þar sem Helgafellið gnæfir

Yfir þreyttan göngugarp

Þar Heiðmörk fögur þræðir

Mitt hjarta hundraðfalt

 

En í skiptum fyrir ást mína

Fyrir eilífa sumarnóttina

Nokkur loforð gefðu mér

 

Láttu fáfræði og hatur

Ekki eitra hjartað þitt

Væri himinninn ekki dapur

Ef regnboginn væri í einum lit

 

Hættu að kvarta yfir veðri

Það gerir ekkert til

Þó það rigni og það blási

Ef þú átt þak yfir höfuðið

 

Megi þessi loforð verða byrinn

Og í brjósti þér kompásinn

Sem verða í hjarta þínu vitinn

Og vísa rétt í sérhvert sinn

 

Að lokum skaltu lofa

Að þessi skilaboð frá mér

Viti sérhver maður, kvár og kona

Í þúsund ár á eftir þér

 

Og í skiptum fyrir ást mína

Stjörnubjarta vetrarnóttina

Nokkur loforð gefðu mér

 

Taktu alltaf vel á móti

Þeim sem flýja heimsins böl

Þau sömu forréttinda njóti

Og þau sem frelsið fá í vöggugjöf

 

Hættu að kvarta yfir veðri

Það gerir ekkert til

Þó það rigni, blási, frysti, snjói

Þú átt þak yfir höfuðið

 

Hérna hjá þér skal ég hvíla

Þar sem skipin sigla heim

Hér mun Hamarinn eilíft skýla

Landi og firði, okkur tveim

———–

Takk Klara og til hamingju með þetta frábæra lag.

Til hamingju með daginn kæru Hafnfirðingar!

———–

Innilegar þakkir frá Fjallkonu Hafnarfjarðar 2023 fá:
  • Hafnarfjarðarbær og frábær framkvæmdanefnd 17. júní fyrir að trúa á mig og standa við bakið á mér í öllum mínum klikkuðu hugmyndum. Þið eruð til fyrirmyndar!
  • Halldór Gunnar Pálsson fyrir að semja með mér lagið og gera sólarhringinn þinn að 25 klukkustundum fyrir mig.
  • Helga Margrét Marzelíusardóttir fyrir að gera æðislega útsetningu fyrir kórinn.
  • Margrét Gauja Magnúsdóttir fyrir að trúa á mig og hvetja síðan ég var 14 ára gömul og troða mér í ýmist leðurbuxur eða þjóðbúninga! Lovjúlongtæm!
  • Karlakórinn Þrestir og Árni Heiðar Karlsson Takk fyrir að vera memm strákar! Þvílíkur heiður að syngja með ykkur!
  • Sandra Karlsdóttir fyrir peppið, vináttuna og aðstoð við undirbúning!
  • Víkingarnir Ingó & Erna fyrir að lána okkur fallega sverðið sem birtist á myndinni.
  • Ásta Björnsdóttir fyrir að hjálpa mér við búninginn, segja mér frá þjóðbúningunum okkar og vera mér til halds og trausts í undirbúning. Dásamleg!
  • Óli Már elsku frændi fyrir að taka myndina og galdra fram nákvæmlega það sem ég ímyndaði mér!
  • Hildur Ösp Agnars fyrir hárið á myndinni! Svo þakklát að þú fléttaðist inn í líf mitt!
  • Elín Reynis og fyrir að gera mig sæta fyrir myndina!
  • Silla á Hárbeitt fyrir að gera mig svona fína á daginn sjálfan! 20+ árum síðar ennþá að bralla saman verkefni.. Samt eldumst við ekki neitt!
  • Jeremy fyrir að halda mér á jörðinni. Bestur í heiminum.
  • Mamma & pabbi fyrir að styðja mig af öllu hjarta í einu og öllu.
  • Amma Gauja fyrir að vera minn stærsti aðdáandi alltaf. Fyrir að kenna mér að konur eru konum bestar, konur eiga að taka sér pláss og þær verða ekkert að vera vinsælar meðan þær gera það. Fylgja hjartanu og áfram gakk… helst í hælaskóm. Sakna þín. Þetta var fyrir þig…
Ábendingagátt