Ávarp fjallkonunnar 2019

Fréttir

Katla Sif Snorradóttir er fjallkona Hafnarfjarðarbæjar 2019. Katla Sif er hestaíþróttakona úr Hestamannafélaginu Sörla og hlaut hún viðurkenningu á síðasta aðalfundi félagsins fyrir besta árangur í barna og unglingaflokki síðastliðið ár. Það þótti viðeigandi að Heilsubærinn Hafnarfjörður fengi öfluga íþróttakonu til að flytja ávarp Fjallkonunnar 2019. 

KatlaSifSnorraKatla Sif Snorradóttir er fjallkona Hafnarfjarðarbæjar 2019. Katla Sif er hestaíþróttakona úr Hestamannafélaginu Sörla og hlaut hún viðurkenningu á síðasta aðalfundi félagsins fyrir besta árangur í barna og unglingaflokki síðastliðið ár. Í ár var Katla  valin í landsliðshóp Íslands til að keppa á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem verður haldið í Berlín í sumar. Það þótti viðeigandi að Heilsubærinn Hafnarfjörður fengi öfluga íþróttakonu til að flytja ávarp Fjallkonunnar 2019 sem í ár er samið af Eygló Jónsdóttur. Katla Sif er nemandi í Flensborgarskóla og Eygló Jónsdóttir höfundur ljóðsins er kennari við skólann. 

Ávarp fjallkonunnar 2019

Lyngheimur, ljósheimur
ljúflingur vakir í steini.
Lyngheimur, ljósheimur
smáfuglar kvaka í reyni.

Þið komuð af hafi
frá fjarlægri strönd
í leit að lífi, í leit að von
og landið opnaði faðm sinn.

Og landið gaf ykkur líf
og landið gaf ykkur von.

Þar sem himinn heilsar hafi
þar sem hraunið sefur í ró.
Þar sem fjallið helgar staðinn,
þar fannstu þér skjól.

Undir hamrinum vættir vaka,
fagna vori með birtu og yl,
ilmar loftið af æskuanda
kallar fólkið til dáða á ný.

Lækurinn segir þér sögur
af sumri og börnum við leik,
um álftir og endur sem dansa
í síkvikum sagnanna heim.

Garðurinn geislar af hlátri
barna við leik og störf.
Í hellum og gjótum sig fela
þar laufskrúðug trén standa vörð.

Við höfnina bátarnir bíða
bjartur dagurinn veitir frið.
Yfir hafflötinn fuglarnir svífa
við öldunnar vaggandi klið

Og enn kemur fólk af hafi
og enn leitar fólk að von.
Opnaðu augun og sjáðu
þar dóttur þína og son.

Frá austri, úr vestri og suðri
börn jarðar,
ljósberar framtíðar .

Hlustaðu á raddir þeirra,
heyrðu kall þeirra.

Verndaðu barnið.
Gefðu því ást þína
gefðu því framtíð
og skjól.

Lyngheimur, ljósheimur
ljúflingur vakir í steini.
Lyngheimur, ljósheimur
smáfuglar kvaka í reyni.

Höfundur: Eygló Jónsdóttir 2019

Ábendingagátt