Ávarp fjallkonunnar 2021

Fréttir

Bergrún Íris Sævarsdóttir, barnabókahöfundur og teiknari, er fjallkona Hafnarfjarðar árið 2021 og höfundur ljóðsins. 

Bergrún Íris Sævarsdóttir, barnabókahöfundur og teiknari, er fjallkona Hafnarfjarðar árið 2021 og höfundur ljóðsins. Bergrún Íris var valin bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2020 en hún hefur á undanförnum árum getið sér gott orð fyrir bækur sínar, bæði hér heima og erlendis. Bergrún er fædd árið 1985, hún lauk prófi í listfræði frá Háskóla Íslands og síðar námi í teikningu frá Myndlistarskólanum í Reykjavík. Fyrsta bók Bergrúnar Vinur minn, vindurinn, sem kom út árið 2014, vakti strax athygli og hlaut tilnefningar til bæði Fjöruverðlauna og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Síðan hafa komið út fjölmargar bækur eftir Bergrúnu þar sem hún er bæði höfundur texta og mynda. Auk þess hefur Bergrún myndskreytt fjölda annarra bóka.

Ávarp fjallkonunnar 2021

Kólnar kvika,
bráðnar ís.
breytist allt á jörðu.
En hvert þitt orð
og æviverk,
er geymt sem grjót í vörðu.

Lækur finnur nýja leið,
foss sér farveg ryður.
Flytja burt fuglar,
en fljúg’ aftur heim.
Lifnar við land
eftir skriður.

En seint gróa sárin
á brotinni sál,
og djúpt rista daganna sprungur,
því landslag hvers lífs
er hæðótt og bratt
og farangur okkar er þungur.

Úr hrjóstrugu hrauni
stráin sér stinga,
Ætíð vex gras upp að nýju
ef það grær í skjóli
úr votri mold
og lífinu mætt er af hlýju.

Byrjum því aftur
sem blóm að vori,
í garði sem sólin til nær.
og biðjum þá forláts,
sem illa við meiddum,
með því sem við gerðum í gær.

Kólnar kvika,
hverfur ís.
Að landi og lífi við gætum
ef við vöndum hvert orð
og ævinnar verk,
af auðmýkt fyrir við bætum.

Höfundur: Bergrún Íris Sævarsdóttir 2021

Ábendingagátt