Bæjarbíó valið fyrirtæki ársins 2025
Bæjarbíó er Fyrirtæki ársins 2025 í Hafnarfirði. Útnefningin fór fram við hátíðlega athöfn í Hafnarborg í gærkvöldi, miðvikudaginn 26. mars. Fjögur önnur fyrirtæki voru tilnefnd í ár: Nándin, Fjörukráin, Ísfell og Gulli Arnar Bakarí. Þá fengu Dalakofinn og Súfistinn heiðurs- og þakkarverðlaun.
Bæjarbíó er Fyrirtæki ársins 2025 í Hafnarfirði. Útnefningin fór fram við hátíðlega athöfn í Hafnarborg í gærkvöldi, miðvikudaginn 26. mars. Viðburðurinn er árlegaur og á vegum Markaðsstofu Hafnarfjarðar. Salurinn var þéttsetinn af gestum sem samankomnir voru til að heiðra framúrskarandi fyrirtæki í bænum, eins og segir í fréttatilkynningu Markaðsstofunnar. Birna Rún Eiríksdóttir uppistandari kítlaði hláturtaugarnar.

Páll Eyjólfsson og Pétur Ó. Stephensen frá Bæjarbíói með viðurkenningargripina í hönd.
Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, afhenti Páli Eyjólfssyni og Pétri Ó. Stephensen frá Bæjarbíói verðlaunin og flutti um leið þakkarorð til fyrirtækisins fyrir þeirra framlag til samfélagsins.
„Bæjarbíó er einstök menningarperla í hjarta Hafnarfjarðar. Það hefur gegnt lykilhlutverki í að efla menningarlíf bæjarins með fjölbreyttri dagskrá sem höfðar bæði til heimamanna og gesta. Með tónleikum, leiksýningum auk þess að spila lykilhlutverk í Jólaþorpi Hafnarfjarðar og Hjarta Hafnarfjarðar hefur Bæjarbíó lagt sitt af mörkum til að gera Hafnarfjörð að líflegum og skapandi bæ. Við erum einstaklega stolt af því að heiðra Bæjarbíó með þessari viðurkenningu,“ sagði bæjarstjórinn.
Fjögur önnur fyrirtæki voru auk Bæjarbíós tilnefnd til verðlaunanna:
- Nándin, plastlaus matvöruverslun í Hafnarfirði, hefur skapað sér sess með umhverfisvænni og sjálfbærri nálgun á verslun. Nándin hefur verið brautryðjandi í plastlausum lausnum og stuðlað að aukinni vitund um umhverfisvernd í bænum.
- Fjörukráin, veitingastaður með víkingaþema, hefur verið aðdráttarafl bæði fyrir íbúa og ferðamenn með einstakri upplifun og lifandi stemningu. Fjörukráin hefur glætt miðbæinn lífi og styrkt ferðaþjónustu í Hafnarfirði.
- Ísfell, rótgróið fyrirtæki í Hafnarfirði, framleiðir veiðarfæri fyrir íslenskan sjávarútveg og hefur með nýsköpun og gæðum eflt bæði atvinnulíf og samkeppnishæfni íslenskra útgerða á alþjóðamarkaði.
- Gulli Arnar Bakarí, handverksbakarí með áherslu á hágæða brauð og bakkelsi, hefur með ástríðu sinni fyrir bakstri auðgað matarmenningu Hafnarfjarðar og skapað mikilvægan samkomustað fyrir bæjarbúa.
Dalakofanum og Súfistanum voru veitt heiðurs- og þakkarverðlaun Markaðsstofunnar fyrir áratuga starf í Hafnarfirði.
„Markaðsstofa Hafnarfjarðar stendur árlega fyrir vali á Fyrirtæki ársins til að heiðra fyrirtæki sem hafa skarað fram úr í að efla atvinnulíf og bæjarbrag í Hafnarfirði. Markmiðið er að vekja athygli á því frábæra starfi sem unnið er innan bæjarins og hvetja til áframhaldandi þróunar og nýsköpunar í atvinnulífi bæjarins,“ segir í tilkynningunni.
„Markaðsstofa Hafnarfjarðar óskar Bæjarbíó innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu og þakkar öllum tilnefndum fyrirtækjum fyrir þeirra ómetanlega framlag til samfélagsins. Ásamt því viljum við þakka dómnefnd fyrir sín störf.
- Í dómnefnd sátu: Jóhannes Egilsson – Formaður stjórnar MSH og eigandi Von Harðfiskverkun, Bjarni Lúðvíksson – Stjórnarmaður MSH og eigandi Reykjavik Asian, Geirþrúður Guttormsdóttir – Eigandi og framkvæmdastjóri Betri stofunnar, Ingvi Einar Ingvason – Eigandi Mars media og Guðrún María Guðmundsdóttir – Markaðsstjóri Fjarðar.
Bæjarbíó, sem var stofnað árið 1945, er elsta starfandi kvikmyndahús landsins og hefur í gegnum árin þróast í að verða alhliða menningarhús. Með fjölbreyttri dagskrá hefur það skapað ómetanlegt framlag til menningar og samfélags í Hafnarfirði. Það hefur verið vettvangur fyrir listamenn á öllum sviðum, og glætt miðbæinn lífi með viðburðum sem höfða til allra aldurshópa.
Hafnarfjarðarbær óskar öllum tilnefndum, heiðursfyrirtækjunum sem og Bæjarbíói innilega til hamingju með þessa flottu vegsemd.