Bæjarstjóri fundar með Terra

Fréttir

Gera má ráð fyrir að áfram verði tafir á sorphirðu þessa vikuna. Fundað var með forsvarsmönnum Terra nú síðast í dag þar sem farið var yfir stöðu mála og ítrekað að grípa til róttækra aðgerða. Terra ráðgerir að vera með tvo auka sorphirðubíla í Hafnarfirði þessa vikuna og áætlar að viðbótin skili því að sorphirða komist á rétt ról í upphafi næstu viku. Mannekla og veikindi hjá þjónustusala sé helsta skýringin á stöðu mála.

Áfram tafir þessa vikuna – rétt ról í upphafi næstu viku

Gera má ráð fyrir að áfram verði tafir á sorphirðu þessa vikuna. Bæjarstjóri og starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar funduðu með forsvarsmönnum Terra nú síðast í dag þar sem farið var yfir stöðu mála og ítrekað að grípa til róttækra aðgerða. Terra ráðgerir að vera með tvo auka sorphirðubíla í Hafnarfirði þessa vikuna og áætlar að viðbótin skili því að sorphirða komist á rétt ról í upphafi næstu viku. Mannekla og veikindi hjá þjónustusala sé helsta skýringin á stöðu mála.

Sex daga seinkun á sorphirðu

Sorp hefur safnast upp víða í Hafnarfirði síðustu daga og vikur. Hundruð ábendinga hafa borist beint til sveitarfélagsins yfir jólahátíðina og í upphafi á nýju ári. Ljóst er að nú í upphafi nýrrar viku að enn er seinkun á tæmingu á heimilissorpi um a.m.k. sex daga. Gangi allt eftir sem skyldi gerir Terra ráð fyrir að að allt verði komið í rétt horf og í takti við sorphirðudagatal bæjarins mánudaginn 27. janúar. Alla jafna eru auka pokar og yfirfylling ekki tekin við heimili en meðan ástandið er svona er sveigjanleikinn aukinn og allt kapp lagt á að koma sorphirðunni í lag.

Rétt er að geta þess að sorphirða gengur nokkuð vel fyrir sig á öðrum tímum ársins. Á sama tíma er ljóst að setja þarf upp enn skýrara skipulag og verkáætlun milli þjónustusala og Hafnarfjarðarbæjar þegar mest liggur við – yfir sjálfa jólahátíðina. Þar ber hæst krafa Hafnarfjarðarbæjar um viðbótarmönnun þannig að hægt sé að koma í veg fyrir þjónustufall á þessum árstíma. Jafnframt er rétt að geta þess að Hafnarfjarðarbær á mikið og gott samstarf og samtal við þjónustusala allt árið um kring.

Sorphirðudagatal á vef bæjarins

Sorphirðudagatal á vef bæjarins er mikið notað. Eins og staðan er í dag þurfa íbúar að bæta við 6 dögum við næstu dagsetningu sem birtist. Eins og áður sagði er síðan stefnt á fyrri áætlun og að aðrar dagsetningar haldi.

Sláðu inn götuheiti og fáðu dagsetningar fyrir þitt heimili

Yfirlit yfir endurvinnslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu 

Yfirlit yfir grenndarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu

Takk fyrir sýndan skilning

Við þökkum íbúum fyrir skilning á stöðu mála og leggjum allt kapp á að sorphirðan komist í lag sem fyrst. Tilkynningar um frávik og aðrar ábendingar er best að skrá beint í ábendingagátt bæjarins. Þá kemst skráningin beint í formlegt ferli.

Ábendingagátt