Bæjarstjóri heimsækir fleiri fyrirtæki í bænum

Fréttir

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri heimsótti á dögunum og kynnti sér starfsemi þriggja fyrirtækja sem starfa í Hafnarfirði. Rósa hefur farið víða og stefnir á að hitta fjölbreytt fyrirtæki í öllum geirum atvinnulífsins, heyra af áskorunum og tækifærum.

Tækifæri og áskoranir hafnfirskra fyrirtækja

Sólríkur morgun tók á móti Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra þegar hún heimsótti fyrstu fyrirtækin í ferð sinni um sveitarfélagið þetta haustið. Markmiðið er að hitta sem flest og fjölbreyttust fyrirtæki í öllum geirum atvinnulífsins í Hafnarfirði.

Fulltrúar Umbúðagerðarinnar, Trefja og Einingaverksmiðjunnar tóku á móti henni í óformlegri heimsókn og sýndu starfsemina. Þetta eru ólík fyrirtæki sem þó eiga framleiðslu sameiginlega. Þau bættust því í hóp þeirra fyrirtækja sem bæjarstjóri hefur þegar hitt.

„Mér finnst mikilvægt að heyra sjálf hvaða áskoranir mæta hafnfirskum fyrirtækjum og hvernig við getum stutt þau sem best með góðu regluverki og ramma hér í Hafnarfirði,“ segir Rósa.

„Svona stutt og snörp samtöl gefa mér ekki aðeins þessa innsýn heldur einnig fyrirtækjunum hér í bæ tækifæri til að koma sínu á framfæri. Það er mjög áhugavert að kynnast starfsemi fjölbreyttra fyrirtækja beint í æð enda er atvinnulífið í bænum einstaklega blómlegt,“ segir hún.

Heimsótti ólík framleiðslufyrirtæki

Umbúðagerðin er í umfangsmikilli pappakassaframleiðslu, Trefjar í bátagerð og sölu heitra potta og Einingaverksmiðjan sérhæfð í forsteyptum einingum til þrjátíu ára.

Trefja þekkja flestir Hafnfirðingar enda fyrirtækið starfað í áratugi í bænum. Það flutti á Óseyrarbraut árið 2008 og hefur stundað eigin bátaframleiðslu frá 1982. Fyrirtækið hefur áralanga reynslu í plastiðnaði og sérhæfir sig í öllu sem viðkemur trefjaplasti auk annarra plastefna.

Einingaverksmiðjan er þrjátíu ára gamalt fyrirtæki sem lengst af var staðsett á Höfða í Reykjavík en hefur nú komið sér fyrir á Koparhellu í Hellnahrauni við Vellina í Hafnarfirði. Það steypir sökkla, veggi, loftaplötur stiga, svalir og fleira og fleira.

Umbúðagerðin er í eigu hjónanna Sigrúnar Edda Eðvarðsdóttur og Eyþórs Páls Haukssonar, stofnað 2014 og flutti fyrst inn umbúðir en ákvað fyrir fjórum árum að fjárfesta í tækjum og hefja eigin framleiðslu. Fyrirtækið er staðsett á Reykjavíkurvegi og framleiðir umbúðir fyrir fyrirtæki í því magni sem þau þurfa.

Fjölbreytt atvinna fyrir fleiri tækifæri

Góðar aðstæður eru fyrir fyrirtæki til vaxtar og framþróunar í Hafnarfirði. Mörg hafa einmitt byggt upp og flutt starfsemi sína í sveitarfélagið síðustu mánuði og ár, rétt eins og Einingaverksmiðjan og Umbúðagerðin.

Nýjar atvinnuhúsalóðir á Hellnahrauni seljast hratt og sveitarfélagið í óða önn að skipuleggja hverfi og svæði undir fjölbreytta starfsemi. Nýjar hugmyndir, þróun og efling á fjölbreyttu atvinnulífi stuðlar að lifandi samfélagi og auknum atvinnutækifærum. Markmið með fyrirtækjaheimsóknum bæjarstjóra er að taka púlsinn á hafnfirsku atvinnulífi með snörpu spjalli og upplifun á starfsemi fyrirtækjanna.

Blómlegt atvinnulíf í stefnu bæjarins til 2035

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í apríl 2022 heildarstefnu Hafnarfjarðar til ársins 2035. Þar er framtíðarsýn, meginmarkmið og stefnumarkandi áherslur fyrir Hafnarfjörð kortlögð þvert á alla málaflokka sveitarfélagsins.

Heildarstefnan er byggð upp í kringum níu meginmarkmið tengd Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Hvert og eitt þeirra á að ýta undir og stuðla að langtímaumbótum og jákvæðum breytingum. Eitt þessara markmiða er blómlegt atvinnulíf.

Fyrirtæki í Hafnarfirði geta sjálf lýst yfir áhuga á að fá bæjarstjóra í heimsókn með pósti á netfangið hafnarfjordur@hafnarfjordur.is og í síma: 585-5500.

 

 

 

Ábendingagátt