Bæjarstjóri heimsótti nýjar höfuðstöðvar Icelandair

Fréttir

Icelandair hefur flutt höfuðstöðvar sínar á Vellina í Hafnarfirði. Nú starfa þar 550 manns í glæsilegu húsnæði sem hannað er af Nordic Arch.

Höfuðstöðvarnar í Hafnarfirði

Nýr Icelandair-heimur tók á móti Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra þegar hún heimsótti höfuðstöðvar flugfélagsins í Hafnarfirði  á aðventunni. Um 550 af nú 3800 starfsmönnum félagsins hafa þar fasta aðstöðu. Þó ekki fasta í þeirri merkingu, því vinnurýmið er opið og hvert skrifborð laust í upphafi dags.

„Höfuðstöðvar Icelandair eru einstaklega glæsilegar í sínum norræna stíl og virkilega hugsað hvernig húsakynnin halda sem best utan um starfsemina,“ segir Rósa bæjarstjóri sem hefur í ár litið inn til  fjölda hafnfirskra fyrirtækja í óformlegri heimsókn.

„Við Hafnfirðingar getum verið stolt af því að þetta rótgróna íslenska fyrirtæki hafi nú flutt starfsemi sína í bæinn okkar. Þetta er eftirsóttur vinnustaður á afar ákjósanlegum stað. Innilega til hamingju starfsfólk Icelandair með glæsilegt hús og aðstöðu.“

Hafa verið á Völlunum í áratug

Icelandair var ekki ókunnugt svæðinu áður en uppbygging höfuðstöðvanna hófst. Þar var fyrir þjálfunarsetur flugfélagsins sem reist var árið 2014. Skrifstofuhúsnæðið er afar glæsilegt og aðstaða fyrir starfsmenn til fyrirmyndar, meðal annars líkamsræktaraðstaða og hjólageymsla, þar sem hægt er að hlaða batteríin.

Bogi Nils Bogason forstjóri og Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðs og menningar, leiddu bæjarstjórann um húsakynnin sem geyma bóklega og verklega þjálfun áhafna, skrifstofustarfsemi, þjónustuver, þjónustuskrifstofu og stjórnstöð. Flugáhafnir koma einnig saman í húsinu áður en haldið er til Keflavíkurflugvallar.

Verið að leggja smiðshöggið á síðustu rýmin

Rósa hitti einnig Guðmund Tryggva Sigurðsson sem hafði veg og vanda af uppbyggingunni en höfuðstöðvarnar eru hannaðar af Nordic Arch, Nordic Office of Architecture. Guðmundur Tryggvi leiddi bæjarstjórann um þann hluta byggingarinnar sem enn á eftir að ganga endanlega frá.

Starfsfólk Icelandair tók fyrstu skóflustungu að nýjum höfuðstöðvum félagsins í Hafnarfirði í september 2022. Þá var stefnt á að hefja notkunina fyrir lok árs 2024. Það hefur aldeilis tekist.

Innilega til hamingju Icelandair!

Ábendingagátt