Bæjarstjórn ályktar gegn breytingu á lögum

Fréttir

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gær ályktaði bæjarstjórn gegn frumvarpi um breytingu á lögum um verslun með áfengi. Bæjarstjórn hvetur alþingismenn til þess að hafna frumvarpi. Fjölmargir aðilar hafa varað við breytingunni og sýna kannanir að meirihluti landsmanna er andvígur frumvarpinu. 

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gær var frumvarp til laga
um breytingu á lögum um verslun með áfengi tekið fyrir og
meðfylgjandi ályktun lögð fram: 

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hvetur alþingismenn
til þess að hafna frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi um breytingu á lögum um
verslun með áfengi. Landlæknir, heilbrigðisstarfsfólk, samtök lækna og
fjölmargir aðilar sem vinna að heilsueflingu og velferðarmálum vara við þeirri
breytingu sem felst í samþykkt frumvarpsins og benda á að rannsóknir sýna að
aukið aðgengi að áfengi, sem verður með mikilli fjölgun sölustaða, leiðir til
aukinnar neyslu, meðal annars meðal barna og ungmenna. Kannanir sýna að
meirihluti landsmanna er andvígur frumvarpinu. Íslendingar hafa tekið forvarnir
gegn ávana- og vímuefnaneyslu barna og ungmenna föstum tökum með undraverðum
árangri. Þar hafa sveitarfélögin lagt sitt af mörkum, meðal annars með
fjölbreyttu og faglegu framboði á íþrótta-, lista- og tómstundastarfi fyrir
börn og unglinga. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar leggur mikla áherslu á
forvarnastarf og setur í forgang að búa börnum og ungmennum sem best
uppvaxtarskilyrði. Heilsa íbúa, hagsmunir og velferð barna og ungmenna eiga að
njóta forgangs í allri stefnumörkun.  Aukið aðgengi að áfengi og áróður í
formi áfengisauglýsinga gengur gegn því sjónarmiði.

Upptöku frá fundi er að finna HÉR

Fundargerð bæjarstjórnarfundar er að finna HÉR

Ábendingagátt