Bæjarstjórn Hafnarfjarðar óskar eftir skýrum svörum um Iðnskólann

Fréttir

Á fundi bæjarstjórnar sem nú stendur yfir var samþykkt að fara fram á það við ráðherra að hann endurskoði ákvörðun sína  um samruna Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans…

Á fundi bæjarstjórnar sem nú stendur yfir var samþykkt að fara fram á það við ráðherra að hann endurskoði ákvörðun sína  um samruna Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans og hafi samráð og samvinnu við fulltrúa hagsmunaaðila, starfsfólks, nemenda, atvinnulífs og bæjaryfirvöld í Hafnarfirði um stöðu og framtíð skólans.

Bæjarstjóri hefur nú þegar óskað eftir fundi með menntamálaráðherra vegna þeirrar stöðu sem upp er komin.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar óskar eftir skýrum svörum frá menntamálaráðherra um eftirtalin atriði, sem hún telur ekki nægjanlega skýr við ákvarðanatökuna:

Óskað er eftir upplýsingum um hvernig yfirvöld hyggjast standa að boðaðri sameiningu skólanna.

1.Með hvaða hætti er áætlað að tryggja áframhaldandi starfsemi í Hafnarfirði?

2.Hvaða námsgreinar er fyrirhugað að kenna í Hafnarfirði?

3.Með hvaða hætti er fyrirhugað að tryggja starfsmönnum Iðnskólans í Hafnarfirði áframhaldandi störf?

4.Eru áform um að skólagjöld hækki frá því sem nú er í Iðnskólanum í Hafnarfirði?

5.Er áætlað að sameinaður skóli komi til móts við nemendur hvað aukinn ferðakostnað varðar?

Óskað er eftir nánari sundurliðun á því í hverju hagræðingin af sameiningu myndi felast.

1.Hver er áætlaður sparnaður ríkisins?

2.Hver er áætluð hagræðing sameinaðs skóla?

3.Er ætlunin að tryggja að mögulegt fjárhagslegt svigrúm sem skapa á vegna hagræðingar verði nýtt til eflingar iðnnáms, í Hafnarfirði sem og annars staðar?

4.Óskað er eftir upplýsingum um hvernig tryggt sé að iðnnám haldist og eflist í Hafnarfirði og hvort ríkið muni gera það að skilyrði í boðuðum samningi um samruna.

5.Óskað er eftir nánari skýringu á hvernig þessi þessi sameining, ef af verður, hjálpar til við að fjölga nemendum í iðngreinum, jafnt í Hafnarfirði sem og annars staðar á landinu.

6.Óskað er eftir upplýsingum um hvort skoðun hafi verið gerð á annarri mögulegri skörun og samnýtingu skóla, t.d. við Flensborgarskóla í Hafnarfirði.

7.Óskað er eftir upplýsingum um hvort þessi aðgerð sé liður í stærri áætlun um eflingu iðnnáms á Íslandi og þá með hvaða hætti. Hvaða aðrar aðgerðir eru í gangi af hálfu stjórnvalda til að ná því marki að efla iðnnám í landinu?

Óskað er upplýsinga um skipan í starfshóp ráðherra sem fjallaði um sameiningu skólanna:

1.Var óskað tilnefninga m.a. frá Hafnarfjarðarbæ eða skipaði ráðherra fulltrúa í hópinn án tilnefninga?

2.Hvernig var samráði að öðru leyti við sveitarfélagið háttað

Iðnskólinn í Hafnarfirði rekur göngu sína til ársins 1928 og á því nærri 90 ára sögu í bænum sem ein af grunnmenntastofnunum bæjarins.  Skólinn er með sterk tengsl við samfélagið, bæði fyrirtækin í bænum og grunnskólana auk þess sem bæjaryfirvöld hafa stutt við starfið með beinum hætti.  Sú ákvörðun menntamálaráðherra að heimila samruna hans og Tækniskólans ehf. eftir stuttan aðdraganda vekur ugg um að afleiðingar þess verði skellur fyrir iðnnám og skólastarf í Hafnarfirði.

Iðnskólinn í Hafnarfirði er eini iðnskólinn hér á landi sem rekinn er af hinu opinbera. Boðuð einkavæðing hans og samruni við Tækniskólann ehf. gengur þvert gegn yfirlýstri andstöðu starfsmanna skólans og bæjaryfirvalda í Hafnarfirði.

Ábendingagátt