Bæjarstjórn unga fólksins – ungt fólk til áhrifa!

Fréttir

Á vormánuðum var öllum nemendum í 10. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar vorið 2021 boðið að taka þátt í hlutverkaleik í fundarsal bæjarstjórnar í Hafnarborg. Þar gafst nemendum tækifæri til að setja sig í hlutverk bæjarfulltrúa í einn dag og samhliða kynna sér yfirstandandi myndlistarsýningu. Verkefnið lukkaðist vel, margir nemendahópar sóttu Hafnarborg heim og búið að ákveða að verkefnið verði hluti af fræðslu- og kynningarstarfi Hafnarborgar.   

Í bæjarstjórn unga fólksins er unnið með hugmyndir nemendanna sjálfra 

Á vormánuðum stóð öllum nemendum í 10. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar vorið 2021 til boða að taka þátt í hlutverkaleik í fundarsal bæjarstjórnar í Hafnarborg. Þar gafst nemendum tækifæri til að setja sig í hlutverk bæjarfulltrúa í einn dag og samhliða kynna sér yfirstandandi myndlistarsýningu. Verkefnið lukkaðist vel, margir nemendahópar sóttu Hafnarborg heim og búið að ákveða að verkefnið verði hluti af fræðslu- og kynningarstarfi Hafnarborgar.   

IMG_8057Nemendur í 10. bekk í Áslandsskóla eru meðal þeirra sem fóru á kostum í hlutverkaleiknum Bæj-Ó-Pólý.

Verkefninu fylgir fræðslupakki 

Undirbúningur fyrir verkefnið fór fram í skólastofu nemendahópanna undir handleiðslu kennara en verkefninu fylgdi fræðslupakki með stuttum spurningaleik og myndbandi sem útskýrir hvernig bæjarstjórn Hafnarfjarðar virkar. Verkefnið sjálft fór fram í Hafnarborg undir handleiðslu Ólafar Bjarnadóttur fræðslufulltrúa safnsins. Að lokinni stuttri leiðsögn um yfirstandandi sýningu skiptu nemendur sér upp í nokkra hópa í fundarsal bæjarstjórnar til þess að fjalla um eigin hugmyndir og tillögur sem lagðar eru fyrir fundinn. Hver hópur ræddi hverja tillögu með það fyrir augum að komast að niðurstöðu með því að hlusta á og meta rök og álit annarra og skiptast á skoðunum. Að lokum fóru nemendur í hlutverk bæjarfulltrúa á bæjarstjórnarfundi og völdu hvaða tillögur væru vænlegastar til að senda áfram til úrvinnslu og skoðunar hjá Ungmennaráði Hafnarfjarðar.

Ýtir undir lýðræðislega virkni barna með áhugaverðum hætti 

Í 12. grein Barnasáttmála SÞ er börnum tryggður réttur til að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum er þau varða. Í Bæjarstjórn unga fólksins er unnið með hugmyndir nemendanna sjálfra og í gegnum hlutverkaleik eru málin til lykta leidd með starfsháttum og verkferlum í takt við samþykktir um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar. Verkefnið stuðlar þannig að lýðræðislegri virkni barna í samfélaginu með virkri tengingu við menningarlíf. Verkefnið fékk styrk úr Barnamenningarsjóði vorið 2020 en vegna takmarkana á samkomum og skólahaldi tókst ekki að hefja það fyrr en vorið 2021. Fyrsti hópurinn tók þátt í verkefninu þann 28. apríl s.l. Næsta vetur er svo gert ráð fyrir að verkefnið verði hluti af almennu fræðslustarfi Hafnarborgar.

Frekari upplýsingar veita:

  • Áslaug Friðjónsdóttir, kynningarfulltrúi Hafnarborgar: s. 664 5780
  • Ólöf Bjarnadóttir, fræðslufulltrúi Hafnarborgar: s. 846 8542
  • Andri Ómarsson, verkefnastjóri á þróunar og þjónustusviði: s. 664 5779

 

Ábendingagátt