Bærinn fjölgar sumarstörfum fyrir ungmenni

Fréttir

Allt að 350 ungmenni á aldrinum 18-25 ára sem sóttu um starf hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar sumarið 2021 fá boð um starf. Sumarið 2020 fengu 260 ungmenni sumarstarf og í venjulegu ári eru sumarráðningar í þessum aldurshópi um 150. 

  • Öll ungmenni á aldrinum 14-17 ára fá boð um starf. 
  • Störf í vinnuskóla fyrir 18 ára og eldri verða 200 fleiri í ár en í venjulegu ári.

Allt að 350 ungmenni á aldrinum 18-25 ára sem sóttu um starf hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar sumarið 2021 fá boð um starf. Sumarið 2020 fengu 260 ungmenni sumarstarf og í venjulegu ári eru sumarráðningar í þessum aldurshópi um 150. 80 ungmenni til viðbótar verða ráðin í gegnum sumarátaksverkefni yfirvalda og Vinnumálastofnunar auk þess sem öll börn og ungmenni á aldrinum 14-17 ára fá boð um starf. Samhliða mun bærinn ráða 25 einstaklinga í gegnum ,,Hefjum störf“ verkefni yfirvalda og Vinnumálastofnunar.

Mikilvægt að tryggja virkni

Ákvörðunin er hluti af eftirfylgni og áframhaldandi aðgerðum sveitarfélagsins sem miða að því að tryggja mikilvægum hópi virkni og reynslu næstu vikur og mánuði. Þessi aukni stuðningur bæjaryfirvalda í Hafnarfirði hljóðar upp á 250 milljónir króna eða um 100 störfum fleiri en í fyrra og 200 störfum fleiri en í venjulegu ári. Viðauki fyrir innspýtingu og ígjöf var samþykktur á fundi bæjarráðs fyrr í dag og verður hann lagður fram til samþykktar á fundi bæjarstjórnar 26. maí. Umsóknarfrestur um sumarstörf er runninn út en enn opið fyrir skráningar á biðlista í vinnuskóla. Stór hluti hópsins mun starfa í Vinnuskóla Hafnarfjarðar sem leiðbeinendur á leikskóla, á íþrótta- og leikjanámskeiðum fjölda félaga í bænum og í fjölskyldugörðum, sem flokkstjórar í Vinnuskóla Hafnarfjarðar og í garðyrkju- og umhverfishópum. Einnig verður starfandi hópur hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar á sviði lista og menningar. Um 80 einstaklingar munu einnig fara í ný og sérhæfð verkefni á sviði umhverfis- og framkvæmdamála, upplýsingatækni, fræðslumála, fjölskyldumála, menningarmála og heilsueflandi samfélags. Þessi verkefni taka meðal annars til miðlunar og stafrænnar þróunar, úttekta á gönguleiðum í Hafnarfirði, skráningu stríðsminja, upplýsingamiðstöðvar á hjólum, heilsueflingar eldri borgara og áhættumats kennsluhugbúnaðar í leik- og grunnskólum. Hópurinn mun bæði vinna á vettvangi verkefna og í nýsköpunarstofu í Menntasetrinu við Lækinn sem sett var upp síðasta sumar.

Reynsla frá síðasta sumri mjög góð

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir reynsluna af atvinnuskapandi aðgerðum bæjarins sumarið 2020 góða. Það sé mikilvægt að fylgja aðgerðum síðasta árs eftir með áframhaldandi innspýtingu. „Það er eitt af hlutverkum ábyrgs bæjarfélags að tryggja ungmennum virkni og vinnu yfir sumartímann. Eins og staðan er núna þá eru umsóknir rétt umfram framboð starfa en vonir standa til að staðan í atvinnulífinu fyrir þennan aldurshóp sé að vænkast og að einhver hópur umsækjenda sé þegar kominn með starf annars staðar. Vonandi náum við, þegar uppi er staðið, að tryggja sem flestum og helst öllum 25 ára og yngri sumarstarf hjá bænum“ segir Rósa. Í venjulegu ári er kostnaður við Vinnuskóla Hafnarfjarðar um 240 milljónir króna en sumarið 2020 varð raunkostnaður um 460 milljónir króna. Heildarkostnaður fyrir sumarið 2021 liggur ekki fyrir en áætlanir gera ráð fyrir að hann rúmist innan þess viðauka sem samþykktur var í bæjarráði í dag. „Við munum líkt og í fyrra sjá víða merki þess í bæjarlandinu og bæjarlífinu að vera með öfluga hópa fólks við störf á fjölbreyttu sviði og það meðal annars við umhirðu og fegrun bæjarins. Umsóknarfrestur í Vinnuskóla Hafnarfjarðar fyrir 14-17 ára rennur út 31. maí.  

Ábendingagátt