Bærinn kaupir Lækjargötu 2

Fréttir

Bæjarráð Hafnarfjarðarbæjar hefur ákveðið að kaupa Lækjargötu 2 sem í daglegu tali gengur undir nafninu Dvergur. Bærinn átti fyrir um 70% af húsinu á móti einkahlutafélaginu Sjónveri sem er eigandi að um 30%. Fyrirhugað er að vinna við breytingu á deiliskipulagi Lækjargötu – Dvergslóðar og hugsanlega næsta nágrennis hefjist fljótlega. Lóðin er á eftirsóknarverðu svæði fyrir íbúðarbyggð en hefur um árabil verið vannýtt og húsið lítil prýði fyrir ásýnd bæjarins.

Bæjarráð Hafnarfjarðarbæjar, í umboði bæjarstjórnar, hefur ákveðið að kaupa Lækjargötu 2 sem í daglegu tali gengur undir nafninu Dvergur. Bærinn átti fyrir um 70% af húsinu á móti einkahlutafélaginu Sjónveri sem er eigandi að um 30%. Fyrirhugað er að vinna við breytingu á deiliskipulagi Lækjargötu – Dvergslóðar og hugsanlega næsta nágrennis hefjist fljótlega.

Einkahlutafélagið Sjónver hefur samþykkt tilboð Hafnarfjarðarbæjar um kaup á 30% hlut félagsins í Lækjargötu 2. Bæjarstjórn hefur ákveðið að rífa húsið og verður farið í deiliskipulagsbreytingu í samræmi við deiliskipulagsforsögn fyrir Lækjargötu 2 sem bæjarstjórn samþykkti þann 17. febrúar síðastliðinn. Samkvæmt samþykktinni er gert ráð fyrir að á lóðinni verði íbúðarbyggð en hafa má aðra starfsemi á jarðhæð s.s. verslanir eða vinnustofur.

Lóðin er á eftirsóknarverðu svæði fyrir íbúðarbyggð en hefur um árabil verið vannýtt og húsið lítil prýði fyrir ásýnd bæjarins. Af henni er útsýni yfir Lækinn, kirkjusvæðið og hluta miðbæjarins. Við mótun þeirra húsa sem byggð verða á lóðinni skal skv. samþykkt bæjarstjórnar taka mið af því að hún er á viðkvæmu svæði í nágrenni við fastmótaða miðbæjarbyggð. Leitast skal við að fella húsin að aðliggjandi húsum við Lækjargötu og Brekkugötu hvað varðar form, efnisval og stærðarhlutföll, þannig að þau virki sem eðlilegt framhald af þeirri byggð sem fyrir er og almennt er ekki gert ráð fyrir að byggt verði hærra en 2 hæðir og ris. Íbúðir eiga að vera af mismunandi stærð og a.m.k. 30% þeirra litlar íbúðir. 

 

 

Ábendingagátt