Bærinn opnar bókhaldið

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur tekið ákvörðun um að opna bókhald bæjarins og gera aðgengilegt á heimasíðu sinni. Nýr raunveruleiki kallar á nýjar lausnir og vill Hafnarfjarðarbær með þessu framtaki svara ákalli um aukinn sýnileika og gegnsæi og jafnframt aukinn áhuga og samfélagsvitund um reksturinn. Vinna við opið bókhald mun hefjast á næstu dögum og er gert ráð fyrir að bókhaldið verði aðgengilegt á heimasíðunni á vormánuðum. 

 

Hafnarfjarðarbær hefur tekið ákvörðun um að opna bókhald bæjarins og gera aðgengilegt á heimasíðu sinni. Markmiðið er að auka aðgengi fyrir notendur að fjárhagsupplýsingum og skýra á sem einfaldastan máta og með myndrænum hætti ráðstöfun fjármuna sveitarfélagsins. Nýr raunveruleiki kallar á nýjar lausnir og vill Hafnarfjarðarbær með þessu framtaki svara ákalli um aukinn sýnileika og gegnsæi og jafnframt aukinn áhuga og samfélagsvitund um reksturinn.

Bæjarráð Hafnarfjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í vikunni að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við Capacent um lausn til þess að innleiða opið bókhald hjá sveitarfélaginu. Bæjarstjóri, Haraldur L. Haraldsson, undirritaði í dag samning við Capacent sem þróað hefur aðferðafræði sem mætir nýjum þörfum markaðarins. Í verkefninu er notast við Power BI lausn frá Microsoft og mun Capacent sjá um uppsetningu og rekstur á þeirri lausn fyrir Hafnarfjarðarbæ. Þessi veflausn býður upp á öflugar myndrænar greiningar í sjálfsafgreiðslu, aðgang að gagnvirkum skýrslum og sýn á gögn frá ýmsum sjónarhornum. Þær fjárhagsupplýsingar sem fara á vefinn innihalda meðal annars tekjur og gjöld sveitarfélagsins, þróun rekstrarliða, þróun helstu hlutfalla í rekstri sveitarfélagsins í samanburði við viðmið um fjármál sveitarfélaga og skiptingu kostnaðar á kostnaðarlykla, skipulagseiningar og birgja. „Með  opnu bókhaldi gerum við fjárhagsgögn Hafnarfjarðarbæjar og lykiltölur úr rekstri ekki bara aðgengilegar á einfaldan máta fyrir alla áhugasama heldur mun framsetning gagna vera myndræn og til þess fallin að auka skilning og enn frekar þann áhuga sem er á rekstri bæjarins. Rekstur sveitarfélagsins er samstarfsverkefni allra hlutaðeigandi og mikilvægt að allir hafi rödd og tækifæri til að skilja og láta skoðanir sínar í ljós. Opið bókhald er mjög jákvætt skref fyrir okkur og mun án efa færa reksturinn nær samfélaginu og samfélagið nær okkur“ segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar í kjölfar undirritunar á samningi. 

Vinna við opið bókhald Hafnarfjarðarbæjar mun hefjast á næstu dögum og er gert ráð fyrir að bókhaldið verði aðgengilegt á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar á vormánuðum.  

Ábendingagátt