Bakvarðasveit unglinganna í Hafnarfirði

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

„Það skiptir máli að unga fólkið okkar hafi rödd í samfélaginu okkar,“ fagstjóri forvarna- og frístundastarfs. Tugir ungmenna úr nemendaráðum grunnskóla Hafnarfjarðar hittust í morgun.

Nemendaráðin hittust í Haukaheimilinu

Tugir ungmenna úr öllum grunnskólum Hafnarfjarðar komu saman í hátíðarsal Hauka á Ásvöllum í morgun. Þau sóttu sér þekkingu og bjargráð fyrir jafningafræðslu og störf sín í nemendaráðum skólanna.

„Það skiptir máli að unga fólkið okkar hafi rödd í samfélaginu okkar. Þetta er grundvallaratriði nú þegar við erum orðin barnvænt sveitarfélag – og var það líka áður. Við höfum alltaf sinnt nemendaráðunum, sem eru í hverjum skóla, vel. Þetta eru hagsmunaráð hvers skóla og þau teygja sig til ungmennaráðsins,“ segir Stella B. Kristinsdóttir, fagstjóri forvarna- og frístundastarfs.

„Við erum á þessum degi til að kenna þeim á öll sín bjargráð, efla þau og hvetja til góðra verka á meðan þau sitja í nemendaráði,“ segir hún. Dagurinn sé skemmtilegur, þau myndi tengsl þvert á skóla.

„Þau vinna líka saman þegar við skipuleggjum grunnskólahátíð, para sig saman á böll og ákveðna viðburði,“ segir Stella um þennan tengsla og þekkingardag nemendaráðanna.

Unga fólkið vann í teymum og ræddi ofbeldi í umhverfi sínu og hvað það gæti gert gegn því. Þau ræddu einnig hvað gæti komið í veg fyrir að það brygðist við ef þau yrðu vitni að ofbeldi. Markmiðið var meðal annars að heyra hvernig þeim fyndist að taka ætti á vandanum. Einnig voru þau beðin um að setja sig í spor stjórnenda.

Faris, Hrafnhildur, Helgi, Fjóla  og Móa voru í hópnum. Faris í Hvaleyrarskóla er á fyrsta ári í nemendaráði. „Mig langaði að prófa eitthvað nýtt,“ segir hann. „Ég er hér fyrir reynsluna og líst vel á daginn.“

Fjóla og Móa eru í 10. bekk í Öldutúnsskóla. „Þetta er frægandi og skemmtilegur dagur,“ segir Fjóla sem hefur verið í tvö ár í nemendaráði. Móa á sínu fyrsta ári. En skiptir þetta máli? „Já,“ svara þær samtímis. Fjóla segir starfið mikilvægt og að þau í 8. bekk hafi einmitt mjög gott af fyrsta svona deginum sínum.

Hrafnhildur, 8. bekk í Hraunvallaskóla, segir að henni hafi litist vel á starfið. „Já, mig langaði að taka þátt og hugsaði að þetta væri gaman, já þetta er gaman og mér líst vel á daginn. Mér finnst fínt hvað við tölum um. Það skýrir málið allt.“

Helgi í 10. bekk í Lækjarskóla segir áhuga sinn á félagsmálum hafi leitt hann í nemendaráðið. „Ég hef verið þrjú ár í ráðinu. Ég hef því setið svona dag áður. Já, þetta virkar. Maður lærir hvernig á að vera í nemendaráði og ég mæli með því.“

Ábendingagátt