Bandalag kvenna í Hafnarfirði vígir nýjan viðhafnarfána

Fréttir

Fáni Bandalags kvenna í Hafnarfirði var vígður við gleðilega stund í Kiwanishúsinu í gær.  Sex kvenfélög eiga aðild að þessum reghlífasamtökum kvenfélaga hér í Hafnarfirði

Bandalag kvenna í Hafnarfirði fær fána

Fáni Bandalags kvenna í Hafnarfirði var vígður við gleðilega stund í Kiwanishúsinu í gær.

Félagið er regnhlífasamtök yfir 6 kvenfélög hér í Hafnarfirði, stofnað 11. október 1972. Kirkjufélögin eru Kvenfélag Hafnarfjarðarkirkju og Fríkirkju, Systrafélag Víðistaðasóknar, Vorboðinn-Sjálfstæðiskonur, Harpa-Framsóknarkonur og Hrund-konur Iðnaðarmanna.

„Það var frábær mæting, skemmtilegur bókalestur, góður gleðiboðskapur frá Millu presti og góð samvera,“ segir Elfa Sif Jónsdóttir, forsvarskona hópsins.

„Við höfum fundið það síðustu misseri að okkur vantaði viðhafnarfána,“ segir Elfa Sif en Hafnarfjarðarbær styrkti þær til framleiðslunnar. Merkið í fánanum er hannað af Gunnari Hjaltasyni, gullsmið og listmálara í Hafnarfirði. Hann hefur einnig smíðað skjöld bandalagsins og líkan úr silfri til að bera í festi eða nælu. Barbara prýðir merkið. „Já, það er frábært að fá fána á þessu baráttuári kvenna.“

Hafnarfjarðarbær óskar félaginu til lukku með nýja gripinn.

 

Myndatexti: Valdimar bæjarstjóri með Elfu Sif, Kristínu Ósk og Guðnýju Elísabetu rétt fyrir vígsluathöfnina síðdegis í gær.

Ábendingagátt