Barnavernd er fagleg þjónusta með góðan tilgang – hlaðvarp

Fréttir

Helena Unnarsdóttir, deildarstjóri barnaverndar, Hafnarfjarðar situr í spjallsæti Vitans þessa vikuna. Helena og samstarfsfólk hennar hjá barnavernd halda utan um mikilvæga þjónustu hjá sveitarfélaginu sem snýr að því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. 

Helena Unnarsdóttir, deildarstjóri barnaverndar
Hafnarfjarðar, situr í spjallsæti Vitans þessa vikuna. Helena hefur verið búsett
í Hafnarfirði frá tólf ára aldri og þykir óendanlega vænt um bæinn sinn og
hafnfirskt bæjarsamfélag. Helena og samstarfsfólk hennar hjá barnavernd halda utan um mikilvæga
þjónustu hjá sveitarfélaginu sem snýr að því að styrkja fjölskyldur í
uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það
á við. 

Eðli málsins samkvæmt getur þjónustan verið umdeild og margir sem hafa
sterkar skoðanir á meðferð mála og afgreiðslu þeirra. Sér í lagi á stóru og
erfiðu málunum sem eiga það til að enda í opinberri umræðu og mögulega ein hlið
málsins fær sviðsljósið. Langflestum barnaverndarmálum ljúki farsællega og
foreldrar/forráðamenn oft á tíðum ekki tilbúnir til að „útskrifast“ eftir
handleiðslu og ráðgjöf þar sem veitt hafa verið viðeigandi og aðlöguð úrræði.
Sterkt og náið samband myndist á milli hlutaðeigandi og sérstaklega gefandi
fyrir starfsfólk að fylgjast með börnum og fjölskyldum blómstra eftir
„útskrift“. Heilt yfir þá er það tilfinning hennar að mál séu orðin flóknari og
erfiðari.

Í þessu viðtali segir Helena okkur frá því ferli sem á sér
stað þegar tilkynning berst inn á borð barnaverndar. Vikulegir fundir marka afstöðu
til tilkynninga og hvort mál fari í könnun og þá skráð sem barnaverndarmál. Þá
tekur við ákveðið ferli sem felur m.a. í sér greiningu, gagnaöflun, innleiðingu
á aðlöguðum úrlausnum og eftirmeðferð. Í þættinum segir hún okkur líka nokkrar
kraftaverkasögur eins og starfsmenn barnaverndar kjósa að kalla þær.

Hlusta á þáttinn

Viðtöl við áhugaverða
einstaklinga sem starf í þágu sveitarfélagsins

Í Vitanum er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem starfa
í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð
þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Hlaðvarpið opnar á ítarlegri
umfjöllun um einstaka verkefni, þjónustu og mál sem eru mikið í umræðunni
hverju sinni. Hægt er að nálgast alla þætti Vitans á heimasíðu
Hafnarfjarðarbæjar en einnig á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast
og Podcast Addict.

Ábendingagátt