Best skreyttu húsin og best skreytta gatan 2021

Fréttir

Í vikunni voru veittar viðurkenningar fyrir best skreyttu húsin og best skreyttu göturnar í Hafnarfirði.

Viðurkenningar veittar – þessi þóttu hlutskörpust í skreytingunum þetta árið  

Í vikunni voru veittar viðurkenningar fyrir best skreyttu húsin og best skreyttu göturnar í Hafnarfirði. Hafnfirðingar og aðrir áhugasamir voru í upphafi desembermánaðar hvattir til að setja upp stóru jólagleraugun og senda ábendingu um þau hús og götur í Hafnarfirði sem þykir bera af í jólaskreytingunum þetta árið. 

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir formaður menningar- og ferðamálanefndar heimsótti verðlaunahafana í vikunni og afhenti íbúum viðurkenningar og tré frá Skógrækt Hafnarfjarðar en valið var í höndum menningar- og ferðamálanefndar Hafnarfjarðarbæjar.

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir formaður menningar- og ferðamálanefndar ásamt fjölskyldunni á Hafravöllum 12

Best skreyttu húsin


Arnarhraun 35
fékk viðurkenningu fyrir fallega skreytt tréð og seríurnar á húsinu sem gefa Arnarhrauninu birtu og jólastemningu. Mikið um dýrðir hjá þessari fjölskyldu öll jól.

Dvergholt 7 fékk viðurkenningu fyrir mikla ljósadýrð og mikinn skreytingaráhuga sem lyftir upp jólastemningunni í götunni.

Einivellir 5 fengu viðurkenningu fyrir heldur betur mikið af seríum og ljósum sem lífga uppá hverfið. Eftirtektarvert framtak í fjölbýlishúsi.

Furuvellir 17 fengu viðurkenningu fyrir mikinn metnað og hugmyndaaugði. Hérna hlýtur verkstæði jólasveinsins að vera, hérna er allt í gangi. Furuvellirnir toppa sig ár eftir ár.

Furuvellir 19 fengu viðurkenningu fyrir vel skreytt hús og mikla hugmyndaauðgi. Ljós og litir og sannkallaður jólaandi með ævintýralegum blæ. Hefur fengið viðurkenningu áður en bætir bara í á hverju ári sem er gott framtak.

Hafravellir 12 fengu viðurkenningu fyrir líflegar skreytingar með fullt af fallegu og litaglöðu jólaskrauti. Hér finnst börnum örugglega gaman að koma og skoða.

Hellisgata 34 fékk viðurkenningu fyrir fallegt og bjart hús á Hellisgötu semer bætt við á hverju ári. Hér fá íbúar hrós fyrir framtakið.

Hlíðarbraut 5 fékk viðurkenningu fyrir rómantískar og fallegar skreytingar sem ríma vel við húsið. Hlý birta og jólafriður.

Skipalón 21 fékk viðurkenningu fyrir skrautlega skreyttan pall við fjölbýlishús, þessi fékk líka viðurkenningu í fyrra og hefur bætt við síðan þá. Það er alltaf upplífgandi að sjá þennan pall í Skipalóni.

Suðurgata 9 fékk viðurkenningu fyrir smekklegar og fallegar jólaskreytingar. Hér er alltaf mikill ævintýrablær yfir öllu jólaskrauti, mikil fjölbreytni og hlýja á jólum og gott að koma og skoða og njóta.

Sævangur 50 fékk viðurkenningu fyrir fallegar og smekklegar skreytingar sem lífga uppá götumyndina.

Þrastarás 11 fékk  viðurkenningu fyrir stílhrein og falleg jólaljós og rómantíska stemningu.

Best skreyttu göturnar


Furuvellir 13-25 – best skreytta gatan 2021
Enn og aftur fá íbúar þessarar götu verðlaunaskjöldinn. Gatan er einstaklega jólaleg og skrautleg með marglitum seríum og skrauti af öllu tagi. Jólagleðin í þessari götu smitar útfrá sér og maður kemst í sannkallað jólaskap með heimsókn á Furuvellina. Heyrst hefur að hér sé mikill náungakærleikur og íbúar aðstoða hvorn annan við að skreyta. Jólaandi og kærleikur á sannarlega við á jólunum. Furuvellirnir eru sannkölluð jólastuðgata því maður getur ekki annað en komist í gott jólaskap að koma við í götunni.

Lækjarhvammur
Fékk viðurkenningu og hrós fyrir fallega skreytta götu í Hvömmunum, allir hafa lagt sig fram við að skreyta hús sín og meira segja fékk bíll í einum garðinu líflega seríu. Það er greinilega góð samstaða og sannur jólaandi í Lækjarhvammi.

Svöluás 2 – 32
Fékk viðurkenningu fyrir smekklega og fallega götu, björt birtan úr hvítu seríunum gefur götunni fallegan og rómantískan blæ. Hér er hlýja og fegurð. 

Hafnarfjarðarbær óskar öllum hlutaðeigandi innilega til hamingju og þakkar áhugasömum íbúum fyrir ábendingarnar! 

Ábendingagátt