Biggi lögga og ánægjulegur árangur Þorpsins

Fréttir

Birgir Örn Guðjónsson er fyrsti viðmælandi Vitans sem er ekki starfsmaður hjá Hafnarfjarðarbæ en vinnur þó í Ráðhúsi bæjarins í áhugaverðu tilraunaverkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Hafnarfjarðarbæjar sem kallast Þorpið. 

Birgir Örn Guðjónsson er fyrsti viðmælandi Vitans sem er ekki starfsmaður hjá Hafnarfjarðarbæ en vinnur þó í Ráðhúsi bæjarins í áhugaverðu tilraunaverkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Hafnarfjarðarbæjar sem kallast Þorpið. Markmiðið með Þorpinu er að draga úr eða koma í veg fyrir vímuefnaneyslu barna og ungmenna með samstarfi aðila sem byggir á hugmyndum um snemmtæka íhlutun t.d. með því að koma í veg fyrir að börn búi við ofbeldi, vanrækslu eða aðrar aðstæður sem gera þau útsettari fyrir áhættuhegðun.

Hlusta á viðtal við Bigga löggu

 Þorpið hefur skilað sýnilegum og ánægjulegum árangri

 

BiggiLogga

Biggi, sem ólst upp á Akureyri, ætlaði sér aldrei að verða lögreglumaður en sendi inn umsókn af rælni í Lögregluskólann og þá varð ekki aftur snúið. Um stutt skeið tók Biggi sér hlé frá starfi lögreglumannsins og vann sem flugþjónn en einnig þekkja margir Bigga úr þjóðmálaumræðunni. Hann hefur verið virkur í stjórnmálum og er m.a. varabæjarfulltrúi í dag í Hafnarfirði. Viðtalið snýst þó fyrst og fremst um starfið hans í Þorpinu en mikil ánægja hefur verið með verkefnið. Biggi tekur áhugaverð dæmi um hvernig þetta verkefni hefur skilað ánægjulegum árangri ekki síst í samskiptum við unga fólkið í Hafnarfirði og vonar innilega að framhald verði á þessu spennandi tilraunaverkefni.

Vilji fyrir því að tilraunaverkefni sé framlengt um ár

Upplýsingar um stöðu Þorpsins, tilraunaverkefnis Hafnarfjarðarbæjar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu , voru lagðar fram á fundum fjölskylduráðs og fræðsluráðs í vikunni. Bæði ráðin leggja áherslu á mikilvægi áframhaldandi samvinnu Hafnarfjarðar við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið, sem hefur reynst mjög vel, svarar þörfum um samvirkni kerfa og þverfaglega samvinnu og í kjölfar Covit19 sé enn ríkari þörf á að styrkja og þróa þetta vinnulag. Þá kom fram að mikið og gott samstarf lögreglunnar við félagsþjónustu, skólaþjónustu, barnavernd og önnur svið og stofnanir sveitafélagsins séu lykilatriði þegar kemur að forvörnum og vernd viðkvæmra hópa eins og barna og ungmenna. Samstarfið auki skilvirkni í vinnslu mála, öryggi, stuðli að minnkun skemmdaverka og bæti þjónustu við íbúa sveitafélagsins m.a. með samræmingu verkferla og bættu aðgengi að lögreglu. Bæði ráðin lögðu fram bókanir þess efnis á ráðsfundum vikunnar þar sem skorað er á lögreglu höfuðborgarsvæðisins að framlengja tilraunaverkefnið um ár og taka þannig þátt í að stuðla að bættum hag barna og standa vörð um Þorpið og þau verkefni sem Þorpið vinnur nú að.


Spjall við áhugaverða einstaklinga sem starfa í þágu bæjarins

Í Vitanum, hlaðvarpi Hafnarfjarðarbæjar, er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem starfa í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Hlaðvarpið opnar á ítarlegri umfjöllun um einstaka verkefni, þjónustu og mál sem eru mikið í umræðunni hverju sinni. Hægt er að nálgast alla þætti Vitans HÉR  en einnig á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast og Podcast Addict. Unnið er að því að gera Vitann aðgengilegan á fleiri veitum.

Ábendingagátt