Bíó alla daga í Bæjarbíói

Fréttir

Bíósýningar verða í Bæjarbíói alla daga þessa viku í tilefni af Bóka- og bíóhátíð barnanna. Þegar hafa rúmlega 700 leikskólabörn boðað komu sína. Um helgina verða bíósýningar í boði fyrir alla fjölskylduna.

Bíósýningar verða í Bæjarbíói alla daga þessa viku í tilefni af Bóka- og bíóhátíð barnanna sem hófst í dag.  Þegar hafa rúmlega 700 leikskólabörn boðað komu sína á Múmínálfana sem sýnd er tvisvar sinnum að morgni virka daga þessa vikuna.  Um helgina verða bíósýningar í boði fyrir alla fjölskylduna. 

Fjöldi leikskólabarna hefur boðað komu sína á bíósýningar kl. 9:30 og 10:30 virka daga þessa vikuna þar sem Múmínálfarnir eru sýndir. 99 börn mættu á sýningar í Bæjarbíói í morgun og eru rúmlega 600 börn væntanleg til viðbótar á sýningar þessa vikuna.  Hér er um að ræða sérstakar boðssýningar fyrir leikskólabörn í Hafnarfirði á aldrinum 4-5 ára. Um næstu helgi verða í boði bíósýningar fyrir alla fjölskylduna, þrjár sýningar hvorn daginn.

Frír aðgangur er á alla viðburði hátíðarinnar!

Laugardagur 20. febrúar

  • Kl. 13     Lína langsokkur
  • Kl. 15     Benjamín dúfa
  • Kl. 20     Englar alheimsins

Einar Már Guðmundsson höfundur skáldsögunnar að baki Engla alheimsins mætir á svæðið og verður með inngang að sýningunni.

Sunnudagur 21. febrúar

  • Kl. 13     Múmínálfarnir
  • Kl. 15     Hrafnar, Sóleyjar og Myrra
  • Kl. 20     Djöflaeyjan

Höfundar sögunnar að baki Hrafna, Sóleyjar og Myrru, þau Eyrún Jónsdóttir og Helgi Sverrisson, verða með inngang að sýningunni kl. 15.  Einar Már Guðmundsson höfundur skáldsögunnar að baki Engla alheimsins mætir á svæðið  kl. 20 og verður með inngang að sýningunni.

Bóka- og bíóhátíð barnanna í Hafnarfirði

Bíósýningar í Bæjarbíói eru liður í hátíðarhöldum Bóka- og bíóhátíðar barnanna sem stendur yfir þessa vikuna. Hér er um að ræða nýja menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði þar sem sérstök áhersla er lögð á bækur og kvikmyndir og skapandi og skemmtileg verkefni sem tengjast hvoru tveggja. Tilgangur hátíðarinnar er að efla áhuga barna á lestri og læsi í víðum skilningi og mun hátíðin styðja við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins sem í gangi hefur verið síðustu misseri. Menningarhátíðin er haldin í nánu samstarfi Hafnarfjarðarbæjar við Bókasafn Hafnarfjarðar, grunnskóla, leikskóla, Bæjarbíó, Hafnarborg, Byggðasafn, Verslunarmiðstöðina Fjörð og fleiri aðila. 

Viðburð hátíðar á Facebook er að finna hér

Ábendingagátt