Það er að bresta á með Björtum dögum 2022

Fréttir

Ertu með hugmynd að dagskrá Bjartra daga? Menningarhátíðin hefst 20. apríl og stendur yfir fram á sumar.

Framundan eru Bjartir dagar, menningarhátíð sem endurspeglar allt það fjölbreytta menningarstarf sem á sér stað í Hafnarfirði og stofnanir, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar standa að. Bjartir dagar hefjast, með fyrstu bæjarhátíð sumarsins, dagana 20.-24. apríl. Hátíðin hefur haldist í hendur við Sumardaginn fyrsta undanfarin ár en mun, líkt og síðustu tvö árin, standa yfir lengur og vera hattur fjölbreyttra menningarviðburða í sumar. Viðburða sem hvetja bæjarbúa til virkrar þátttöku og góðrar samveru.

Sumar tekur við af vetri á Björtum dögum

Hátíðin hefst síðasta vetrardag með sumarsöng nemenda, vali á bæjarlistamanni Hafnarfjarðar, afhendingu menningarstyrkja og tónlistarhátíðinni HEIMA, einstakri tónlistarhátíð sem fer fram í heimahúsum í miðbæ Hafnarfjarðar. Á Sumardaginn fyrsta verður boðið uppá fuglaskoðun við Hvaleyrarvatn, víðavangshlaup í miðbæ Hafnarfjarðar og skátadagskrá á Thorsplani.

Viltu skrá viðburð til þátttöku?

Hafnarfjarðarbær heldur utan um almenna skipulagningu og samhæfingu viðburða, stendur að útgáfu dagskrár og kynnir hátíðina. Nú er um að gera að leggja höfuðið í bleyti og koma með hugmyndir að dagskrá og senda hugmyndir og upplýsingar um viðburði sem eru á döfinni á netfangið: menning@hafnarfjordur.is

Nokkur dæmi um skemmtilega dagskrárliði

  • 3. bekkingar syngja inn sumarið á Thorsplani miðvikudaginn 20. apríl kl. 10.
  • Leikskólalist. Leikskólabörn taka virkan þátt og skreyta fyrirtæki, verslanir og stofnanir og næsta nágrenni við leikskólana.
  • Fuglaskoðun í Höfðaskógi. Lagt af stað frá Þöll Kaldárselsveg kl. 11 á Sumardaginn fyrsta
  • The Road goes ever on. Hópur ungra listamanna flytur söngljóðaflokk úr Hringadróttinssögu Tolkiens í tónsetningu Donald Swann á Bókasafni Hafnarfjarðar á Sumardaginn fyrsta kl. 16 
  • Síðdegistónar í Hafnarborg föstudaginn 22. apríl kl. 18.
  • Stóri plokkdagurinn. Hafnfirðingar hvattir til að taka til hendinni og hreinsa bæinn sinn.
  • Söfn bæjarins verða opin. Pakkhús Byggðasafnsins, Bókasafn Hafnarfjarðar og Hafnarborg
Ábendingagátt