Bjartir dagar 2022

Fréttir

Framundan eru Bjartir dagar í Hafnarfirði pakkaðir af fjölbreyttum viðburðum sem stofnanir bæjarins, íþróttafélög, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar standa fyrir.

Framundan eru Bjartir dagar í Hafnarfirði pakkaðir af fjölbreyttum viðburðum sem stofnanir bæjarins, íþróttafélög, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar standa fyrir. Hátíðin hefur haldist í hendur við Sumardaginn fyrsta undanfarin ár en mun, líkt og síðustu tvö árin, standa yfir lengur og vera hattur fjölbreyttra menningarviðburða í allt sumar.

Sérstök áhersla er lögð á þátttöku barna og unglinga enda er Sumardagurinn fyrsti hluti af hátíðarhöldunum. Ýmsir tónlistarviðburðir skipa stóran sess í dagskrá Bjartra daga í ár með tónlistarhátíðina HEIMA í broddi fylkingar og á föstudagskvöld verða söfn, verslanir og vinnustofur listamanna opnar fram á kvöld. Þá standa tónlistarmenn, íþróttafélög og ýmis félagasamtök að fjölbreyttum viðburðum og menningarstofnanir bæjarins bjóða uppá skemmtilega dagskrá.

Sumar tekur við af vetri á Björtum dögum

Hátíðin hefst síðasta vetrardag með sumarsöng nemenda, vali á bæjarlistamanni Hafnarfjarðar, afhendingu menningarstyrkja og tónlistarhátíðinni HEIMA, einstakri tónlistarhátíð sem fer fram í heimahúsum í miðbæ Hafnarfjarðar. Á Sumardaginn fyrsta verður meðal annars boðið uppá fuglaskoðun við Hvaleyrarvatn, víðavangshlaup í miðbæ Hafnarfjarðar og skátadagskrá á Thorsplani.

Kynntu þér dagskrá Bjartra daga 2022 hér:

Viðburða- og menningarstyrkir í kjölfar Covid-19

Í venjulegu ári stendur þessi fyrsta bæjarhátíð landsins yfir í fimm daga en ákveðið hefur verið að hátíðin standi yfir í allt sumar og hefur bæjarráð auglýst sérstaka viðburða- og menningarstyrki í kjölfar Covid-19 lausa til umsóknar. Styrkirnir eru hugsaðir meðal annars til þess að halda viðburði og uppákomur um allan bæ í sumar og mikilvægt er að verkefnin skírskoti til breiðs hóps fólks og margir fái að njóta.

Ábendingagátt