Bjartir dagar í Hafnarfirði allan júní

Fréttir

Menningarhátíðin Bjartir dagar hefst í Hafnarfirði á 116 ára afmælisdegi bæjarins á morgun laugardaginn 1. júní og verður boðið upp á fjölbreytta og skemmtilega viðburði allan júní. Hátíðin endurspeglar það fjölbreytta menningarstarf sem á sér stað í Hafnarvirði – verið öll velkomin!

Njótum fjölbreyttra viðburða allan júnímánuð

Menningarhátíðin Bjartir dagar hefst í Hafnarfirði á 116 ára afmælisdegi bæjarins á morgun laugardaginn 1. júní. Hátíðin fagnar 21 árs afmæli í ár og boðið verður upp á fjölbreytta og skemmtilega viðburði allan júní. Hátíðin endurspeglar það fjölbreytta menningarstarf sem á sér stað. Á upphafsdegi hátíðarinnar í ár, á sjálfan afmælisdaginn, eru forsetakosningar og Hafnfirðingar hvattir til að nýta kosningarétt sinn. Gleðin verður við öll völd í Bókasafni Hafnarfjarðar með sumarlestri, prinsessum og Dr. Bæk. Hægt er að njóta listar og  menningarmeð innliti á Byggðasafn Hafnarfjarðar og í Hafnarborg. Öll sýningarhús byggðasafnsins opna 1. júní ár hvert og í gær opnaði ný sýning í Hafnarborg.  Svo er alveg tilvalið að skella sér í sund!

Sumri fagnað með fjölbreyttum hátíðarhöldum

Bjartir dagar er þátttökuhátíð sem byggir á því að stofnanir, félagasamtök, fyrirtæki, íþróttafélög, tónlistarfólk og einstaklingar taki þátt í að skapa viðburði um allan bæ sem tengjast hátíðinni eða taki þátt í þeim dagskrárliðum sem aðrir skipuleggja. Kraftur og gróska í listalífinu í Hafnarfirði hefur meðal annars endurspeglast í viðburðinum Gakktu í bæinn þegar listamenn, hönnuðir og handverksfólk á svæðinu frá smábátahöfninni að miðbæ Hafnarfjarðar opna vinnustofur sínar á föstudagskvöldið 7. júní og bjóða gesti og gangandi velkomna í heimsókn. Þá verða einhverjar verslanir í miðbænum opnar fram á kvöld og tilvalið að versla einstaka hönnun og list í hjarta Hafnarfjarðar. Ýmsir tónlistarviðburðir skipa stóran sess í dagskrá Bjartra daga í ár líkt og fyrri ár og þá fer einnig mikið fyrir íþróttaviðburðum í heilsubænum Hafnarfirði en 8. júní verður Hafnarfjarðarhlaupið haldið á götum bæjarins og kemst þar með í fámennan hóp götuhlaupa á Íslandi.

Dagskrá Bjartra daga má finna á hfj.is/bjartirdagar

Ábendingagátt