Bjartir tímar framundan

Fréttir

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árin 2016 – 2019 hefur verið samþykkt.

Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir rúmlega 360 milljóna króna rekstrarafgangi á A og B hluta. Áætlað veltufé frá rekstri samantekið fyrir A og B hluta er 3,3 milljarðar króna sem er um 15% af heildartekjum sveitarfélagsins. Aukið veltufé er grunnforsenda þess að árangur náist í að lækka skuldir bæjarfélagsins.

Umbætur í rekstri

 
„Með þessari áætlun er búið að ná tökum á undirliggjandi vanda í rekstri bæjarfélagsins“ segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar. Í nýsamþykktri áætlun er áhersla lögð á óbreytt þjónustustig í bæjarfélaginu. Leikskólagjöld breytast ekki annað árið í röð. Fasteignaskattur mun hækka á móti lækkun vatns- og fráveitugjalda þannig að álögur á íbúa aukast ekki. Þetta eykur jafnframt afslátt til aldraðra og öryrkja af fasteignaskatti. Fyrir árslok 2015 verða erlendar skuldir bæjarfélagsins greiddar upp að stærstum hluta og á nýju ári verða nær allar skuldir bæjarfélagsins í íslenskum krónum. 

,,Í þessari fjárhagsáætlun eru sett fram skýr markmið um niðurgreiðslu skulda og hagræðingu sem mun skila miklum umbótum á rekstri bæjarins. Þess vegna er afar mikilvægt að áætluninni sé fylgt í hvívetna. Hér er lagður grunnur að fjárhagslegri endurreisn sveitarfélagsins sem allir bæjarbúar munu síðar njóta góðs af,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir formaður bæjarráðs.

 


Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2016

Hafnarfjörður er þriðja stærsta sveitarfélag landsins með heildarútgjöld upp á um 21,9 milljarða króna. Áætluð laun og launatengd gjöld eru um 10,6 milljarðar króna og fjármagnskostnaður um 2,1 milljarður króna, eða sem nemur 9,6% af heildartekjum sveitarfélagsins. 

  • Rekstrarniðurstaða A og B hluta er jákvæð um 361 milljónir króna og rekstrarniðurstaða A hluta jákvæð um 14,9 milljónir króna sem er viðsnúningur frá áætlun fyrra árs þar sem niðurstaðan var neikvæð um 333 milljónir króna
  • Heildareignir samstæðunnar eru áætlaðar um 47,9 milljarðar króna í árslok 2016. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar um 40,3 milljarðar króna og eigið fé um 7,6 milljarðar króna
  • Áætlað veltufé frá rekstri A hluta er um 2,4 milljarðar króna  og samantekið fyrir A og B hluta 3,3 milljarðar króna sem er tæplega 15% af heildartekjum
  • Á árinu 2016 er ráðgert að greiða niður eldri lán og skuldbindingar sem nemur 600-800 milljónum króna
  • Áætlaðar fjárfestingar á árinu eru 925 milljónir króna og áætluð sala iðnaðarlóða fyrir 200 milljónir króna
  • Almennt er gert ráð fyrir 4,5% vísitölubreytingum á gjaldskrá fyrir árið 2016. Þó mun dvalargjald í leikskóla haldast óbreytt



Rík áhersla á fræðslu- og uppeldismál

Fjárheimild vegna fræðslu- og uppeldismála hækkar um 644 milljónir króna á milli ára eða um 7%. Áfram verður lögð áhersla á bættan námsárangur í læsi og stærðfræði auk þess sem áframhaldandi tæknivæðing mun eiga sér stað í leik- og grunnskólum. Grunnskólanemum fjölgar um 103 milli ára á meðan leikskólabörnum fækkar um 83 miðað við óbreyttan inntökualdur og verður brugðist við því. Gert er ráð fyrir að öll börn sem fædd eru í mars 2015 og fyrr komist inn á leikskóla haustið 2016. Stórir árgangar eru í yngstu bekkjum grunnskóla og hefur aðsókn í frístundadvöl aukist í samræmi við það. Á næsta ári má búast við að allt að 80 fleiri börn nýti þjónustuna sem kallar á fjölgun starfsmanna. Fjárveiting vegna niðurgreiðslu þátttökugjalda hækkar. Nú geta foreldrar/forráðamenn fengið niðurgreiðslu vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna sinna í öðrum sveitafélögum, sem er nýjung. Nemendur í 8. – 10. bekk munu fá í kringum 13% launahækkun fyrir vinnu sína í Vinnuskólanum. Aukin áhersla verður jafnframt lögð á forvarnir m.a. með samstarfi við Samtökin 78 og Rauða krossinn.


Með því að minnka vaxtakostnað bæjarins markvisst verður meira umleikis til beinnar þjónustu við bæjarbúa. Þannig skilar áætlun ársins 2016 okkur áleiðis að settu marki um að tryggja Hafnfirðingum aukna þjónustu gegn lægri gjöldum. Þetta er því fyrst og fremst hagsýn áætlun sem horfir til framtíðar“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar.

Fylgiskjöl með fréttatilkynningu

Hafnarfjörður – málaflokkayfirlit 2016 – 2019

Greinargerð með fjárhagsáætlun 2016 – 2019

Hafnarfjörður – fjárhagsáætlun 2016 – 2019

Hafnarfjörður – fjárhagsáætlun 2016
 

Ábendingagátt