Blómlegt starf hjá Brettafélaginu

Fréttir

Brettafélag Hafnarfjarðar hefur komið upp fyrirmyndaraðstöðu fyrir krakka á öllum aldri sem áhuga hafa á hjólabrettum, BMX og snjóbrettum og það í gömlu Slökkvistöðinni við Flatahraun. 

 

Fyrir nokkru síðan gerðu Brettafélagið og Hafnarfjarðarbær með sér samning um rekstur og stuðning vegna starfsemi félagsins og í dag var undirritaður samningur sem styður við áframhaldandi starfsemi í húsinu.

Aðstaðan ein sú besta á höfuðborgarsvæðinu

Hafnarfjarðarbær og Brettafélagið hafa staðið að uppbyggingu innanhúss í gömlu Slökkvistöðinni sem aðallega hefur falist í gerð á hjólabrettapöllum og lýkur þeirri uppbyggingu um næsta áramót. Til að tryggja áfram starfsemi Brettafélagsins var gerður samningur um stuðning bæjarins við félagið. Samningurinn tryggir að ýmsum gæðaviðmiðum sé framfylgt og viðheldur því blómlega starfi sem einkennt hefur félagið. Aðstaðan þykir ein sú besta á höfuðborgarsvæðinu og æfðar eru nú þrjár greinar hjá félaginu: hjólabretti, BMX og snjóbretti. Snjóbrettadeildin er nýstofnuð og komast strax færri þar að en vilja.

 
Jóhann Ó. Borgþórsson formaður Brettafélagsins og Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri

 
„Ég vil nota tækifærið og hrósa Brettafélaginu og þar með öllum þeim foreldrum sem hafa með sjálfboðavinnu sinni og framkvæmdagleði komið upp aðstöðu fyrir börnin okkar hér í Hafnarfirði sem er til mikillar fyrirmyndar. Það er hverju samfélagi mikilvægt að búa yfir hópi foreldra sem sjá tækifæri til framkvæmda og grípa þau. Einstaklingsframtakið verður seint metið til fjár“ segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri að undirritun lokinni.

Brettafélagið var í upphafi mánaðar samþykkt sem aðildarfélag að ÍBH og er þar af leiðandi orðið viðurkennt íþróttafélag og aðildarfélag að íþróttafjölskyldu ÍSÍ. Þetta er stórt skref fyrir Brettafélagið og snjóbrettadeild og þýðir það að nú geta allir snjóbrettaiðkendur félagsins tekið þátt í íþróttaviðburðum á vegum sérsambanda ÍSÍ og öllum mótum á vegum Skíðasambands Íslands þ.m.t. Andrésar Andarleikum.

Nánari upplýsingar um félagið má finna 
hér.

Ábendingagátt